150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[17:34]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við höfum öll lesið þetta ákvæði sem er til meðferðar hér. Við erum búin að lesa það, hv. þingmaður þarf ekki að lesa það aftur fyrir mig. Það sem ég er að spyrja um er í fyrsta lagi hvort einhver fordæmi séu fyrir því að ráðherra sé með lögum veitt heimild til að ákveða að víkja frá lagagreinum sem ekki eru skilgreindar. Það er ekki búið að skilgreina hvaða greinar í þessum lögum ráðherra mun gera óvirkar, vissulega í samráði við sveitarstjórn. Ég er meðvituð um það, hv. þingmaður, ég veit það.

Ég spyr að þessu vegna þess að við höfum mjög skýr fyrirmæli, t.d. í mannréttindasáttmála Evrópu, sem við mættum taka okkur til fyrirmyndar, um í hvaða tilfellum og á hvaða hátt ríkisstjórnum er heimilt að víkja frá gildandi rétti, gildandi réttindum, þegar um neyðarástand er að ræða. Ég held að þau skilyrði geti vel átt við í þessu tilfelli líka. Þau fela í sér að um virkilegt neyðarástand sé að ræða, sem ég vil meina að sé alls ekki nógu vel skilgreint í þessu frumvarpi, og að þær undanþágur, eða frávik, sem verið er að heimila séu skýrt afmarkaðar, skiljanlegar og takmarkaðar í tíma. Þá meina ég líka þennan hemil hérna á meðan það er ekki skýrt afmarkað, þ.e. þær heimildir sem er verið að veita ráðherra og meiri hlutum í sveitarstjórnum þessa lands, því að við skulum hafa í huga að það er meiri hlutinn sem alla jafna tekur ákvarðanir. Ef við ætlum að gefa meiri hluta sveitarstjórna og ráðherra vald til að víkja frá lögum um sveitarstjórnir þá skulum við alla vega að hafa fyrir því að tilgreina hvaða greinar í lögum um sveitarstjórnir við erum að tala um. Og þá getum við verið að tala saman. Auðvitað styðjum við það að sveitarstjórnir landsins geti haldið áfram að starfa. (Forseti hringir.) En við óskum eftir því að það sé tilgreint hvaða matseðill er í boði fyrir sveitarstjórnir ef víkja á frá gildandi lögum um sveitarstjórnir.