150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[17:36]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er ekki lögfróð á þann hátt að ég geti tínt til dæmi úr öðrum lögum. En ég vil ítreka að hér er ráðherra veitt heimild í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga til þess að veita sveitarstjórnum heimild, það er ekki ráðherra og sveitarstjórn sem ákveða lögin saman. (Gripið fram í.) Það kom akkúrat fram máli hv. þingmanns eins og þetta væri eitthvert mix á milli einstakra sveitarstjórna og ráðherra hvað væri ákveðið. Þetta eru aðskildar ákvarðanir, ein hjá ráðherra, önnur í viðkomandi sveitarfélagi. Það getur verið mismunandi á milli sveitarfélaga hvaða frávik þarf að fara í því að engin tvö sveitarfélög eru eins í þessu landi. (Gripið fram í: Eru þau skilgreind?) Frávikin eru ekki skilgreind vegna þess að hvorki ég né nokkur annar treystir sér til að skilgreina hvað gæti komið upp í neyðarástandi eins og berlega hefur komið fram í liðnu almannavarnaástandi í vetur, þar sem m.a. liggur fyrir að við þurfum að fara í heimildir, segjum í fjarskiptalögum, til að víkja frá almennri reglu um samkeppni og ýmislegt fleira.

Samkvæmt minni þekkingu á sveitarstjórnarlögum sé ég ekki þessa hættu sem hér er verið að teikna upp. Í mínum huga er þetta býsna vel afmarkað. Önnur gagnrýni sem ég hef heyrt á þetta frumvarp er akkúrat á hinn veginn, að verið sé að gera ráð fyrir því að fara þurfi í of mikið samráð við ákvörðun sem þurfi að taka býsna hratt.