150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[17:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Framsögumaður sér ekki hættuna en á sama tíma sér framsögumaður heldur ekki lausnina, því að lausnin í frumvarpinu er einfaldlega að gefa ráðherra svigrúm til þess að geta vikið frá öllum ákvæðum sveitarstjórnarlaga. Það er ansi víðtæk heimild til að víkja frá ákvæðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands. Í greinargerð frumvarpsins er fjallað um tilefni þess, tilmæli yfirvalda almannavarna, með leyfi forseta:

„Til að hægt verði að bregðast við þeim tilmælum án þess að það torveldi ákvarðanatöku innan stjórnkerfis sveitarfélaga þykir m.a. ástæða til þess að rýmka reglur um fjarfundi í sveitarstjórnum og ráðum og nefndum sveitarfélaga.“

Þarna eru talin upp tilvik sem er nauðsynlegt að bregðast við. Lausnin við því er ekki að segja: Allt í lagi, við getum kannski bara brugðið frá ákvæðum um sameiningu sveitarfélaga og hvað með aðalskipulagspælingar o.s.frv. Hver veit?

Að einhverju leyti má líta á sveitarstjórnarlög sem nokkurs konar stjórnarskrá sveitarfélaga. Þar er að finna formfestu í stjórnsýslu og fjallað er um takmörkun valdheimilda, svo sem skyldur og fjármál, aðkomu almennings og eftirlit. Í greinargerð frumvarpsins segir einnig:

„Gert er ráð fyrir að ákvæðið verði hluti af viðbragðsáætlun ráðuneytisins, og að ráðuneytið líti sérstaklega til reglunnar þegar neyðarstig almannavarna hefur verið virkjað.“

Lagabreytingartillagan fjallar hins vegar um neyðarástand sem getur vel verið hægt að túlka á víðtækari hátt. Þó að markmiðið sé að tryggja starfhæfi sveitarstjórna í neyðarástandi er hvorki hægt að leggja til að hægt sé að víkja frá öllum ákvæðum sveitarstjórnarlaga né að setja bara skilyrði um neyðarástand. Í núverandi ástandi eru fyrirsjáanleg vandamál og lausnin við þeim vandamálum er ekki að gefa almenna heimild til að víkja frá ákvæðum laga sem koma vandamálinu ekkert við. Það er nákvæmlega í slíkum aðstæðum sem við þurfum að halda haus og leysa málin með yfirveguðum hætti. Við megum ekki nota neyðarástand sem afsökun fyrir því að afnema lög og reglur, því að þó að núverandi stjórnvöld misnoti ekki þær heimildir sem gefnar eru í þessu frumvarpi til að víkja frá ákvæðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands, er mannlegur breyskleiki þannig að af og til kemur Trump eða Thatcher sem nýta úrræðin til annarra verka en þau voru ætluð til. Þó að við sjáum ekki hættuna í dag eru þetta lög sem eru sett án gildistíma, þau koma til með að virka fyrir næstu ríkisstjórn og þá næstu o.s.frv. ef ekkert verður að gert. Það væri líka hægt að telja upp langan lista af fólki úr mannkynssögunni sem hefur einmitt beitt fyrir sig lögum til að réttlæta það sem stendur þar samkvæmt lagabókstafnum. Fullt af dæmum.

Forsendur frumvarpsins eru fínar. Auðvitað á að vera hægt að halda fjarfundi hjá sveitarstjórnum í núverandi ástandi og við vorum að samþykkja það rétt fyrr í dag varðandi þingið. Það tók ekki langan tíma og var mjög hnitmiðuð lausn á því vandamáli. Það þýðir ekki að lausnin sé að gefa ráðherra heimild til að sveitarstjórn geti vikið frá hvaða ákvæðum sveitarstjórnarlaga sem er. Af hverju ætti t.d. að gefa ráðherra heimild til að víkja frá ákvæðum XII. kafla sveitarstjórnarlaga um sameiningu sveitarfélaga? Það er möguleiki. Enginn með réttu ráði myndi láta sér detta það í hug. En við erum einmitt að tala um aðstæður þar sem fólk, ekki með réttu ráði, í neyðarástandi, gæti tekið skringilegar ákvarðanir. Við vitum öll hver vilji núverandi ríkisstjórnar er t.d. í málum um sameiningu sveitarfélaga. Væri hægt í skjóli neyðarástands að sameina sveitarfélög? Það yrðu örugglega gríðarleg læti, dómsmál og þess háttar, en málið væri búið og gert.

Í umræðum umhverfis- og samgöngunefndar um hvort nefndin ætti að flytja málið var þó nokkuð rætt um það hvort við gætum séð fyrir hvaða viðbrögð ófyrirsjáanlegt neyðarástand kallaði á. En það er ekki það sem við fjöllum um hérna. Við erum ekki að tala um eitthvert ófyrirséð neyðarástand í framtíðinni. Við erum að tala um núverandi neyðarástand sem þarf að leysa. Það neyðarástand felur í sér fyrirsjáanleg vandamál og í samhengi sveitarstjórnarlaga á lausnin á þeim vandamálum að vera hnitmiðuð. Við sjáum alveg hvaða vandamál þetta eru, bent er á þau í greinargerðinni. Lausnin er a.m.k. eins hnitmiðuð og við getum á þeim tíma sem við höfum til að vinna þetta mál.

Ég er því búinn að reyna að semja breytingartillögu við málið og er búinn að senda hana á nokkra nefndarmenn, formann nefndarinnar og fleiri til að skoða hvernig gæti verið hægt að vinna málið aðeins nákvæmar, aðeins hnitmiðaðra. Þetta er í tvennu lagi, annars vegar breytingartillaga sem gefur heimild til að víkja tímabundið frá upptöldum ákvæðum sveitarstjórnarlaga, ekki bara sagt „tilteknum“ og svo er enginn listi um það hvaða ákvæði það eru, sem sagt ekki öllum. Hins vegar, ef þingið samþykkir ekki þá takmörkun, er varatillaga um að takmarka a.m.k. gildistíma þeirra lagabreytinga sem hér eru lagðar fram. Þá gilda þær alla vega bara um það neyðarástand sem er núna. Þegar það er liðið klárast gildistími þessara lagabreytinga. Við verðum þá að gera einhverjar almennari breytingar vegna ófyrirséðra neyðartilvika sem við gætum kannski ímyndað okkur í framtíðinni, en málið fengi þá alla vega góða þinglega meðferð og umsagnir frá öllum aðilum.

Virðulegi forseti. Neyðarástand getur ekki verið ástæða fyrir því að víkja frá lögum og reglum. Ef eitthvað er þá eru lög og reglur þeim mun mikilvægari í neyðarástandi til að passa upp á að ekki sé vaðið yfir réttindi borgaranna undir yfirskini neyðarástands (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Til að verja grunngildi lýðræðis og koma í veg fyrir misnotkun á valdi viljum við að stjórnvöld geti tekið nauðsynlegar ákvarðanir og farið í hnitmiðaðar aðgerðir til að bregðast við í neyð. En við viljum líka að réttindi okkar sem borgara í lýðræðislegu samfélagi séu virt. Í þessu felst engin ásökun á velsprittaðar hendur núverandi stjórnvalda, en eins og ég sagði áðan gerist það allt of oft og allt of reglulega að fólk kemst til valda sem misnotar aðstöðu sína með þeim tækjum og tólum sem eru handhæg. Það er því hlutverk okkar að passa upp á að slík tæki og tól séu ekki til staðar.

Við þurfum ekki að gefa þessa víðtæku heimild, hún er varasöm. Á nákvæmlega sama hátt og ekki er hægt að sjá fyrir nákvæmlega hvaða vandamál neyðarástand skapar er ekki svo auðvelt að sjá fyrir sér hvernig hægt er að nýta sér þessa glufu í lögunum, hvernig hægt er að misnota þessa víðtæku valdheimild. En möguleikinn er augljóslega til staðar. Það er það sem er vandamálið. Við sjáum hins vegar hverjar lausnirnar eru, það er búið að benda okkur á hvað þurfi að laga. Þá gefum við einfaldlega leyfi til að víkja frá ákvæðum sem snerta þau vandamál, þ.e. að fólk í sóttkví getur ekki tekið ákvarðanir á fundi sveitarstjórnar, það hefur ekki atkvæðisrétt á fjarfundi o.s.frv., fær leyfi til að stytta tímann á málsmeðferð og til að víkja frá ýmsum ákvæðum sem eru talin upp í greinargerðinni. Í breytingartillögunni er farið yfir þá kafla og þau ákvæði og þar er lagt til að ef við ætlum að gefa svona víðtæka heimild sé hún í fyrsta lagi takmörkuð við ákveðin ákvæði og í öðru lagi alla vega með takmarkaðan gildistíma.