150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[17:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega er það nokkuð langsótt. Sveitarfélagið þarf að biðja um að geta vikið frá ákveðnu ákvæði sveitarstjórnarlaga, en það er ekki takmarkað hvaða ákvæði sveitarstjórn getur beðið um að fá heimild til að víkja frá. Þar af leiðandi gæti sveitarfélag beðið um að fá að víkja t.d. frá grein í kafla um sameiningu sveitarfélaga. Vissulega þyrfti ráðherra að samþykkja það, en þá væri komin heimild fyrir því að víkja frá þeim kafla. Og hver veit, það væri hægt að skella inn einni sameiningu sveitarfélaga. Það er líka hægt í neyðarástandi, þegar sveitarstjórn er óstarfhæf, að láta nágrannasveitarfélög sjá um stjórn nágrannasveitarfélags og þá eru bara allt í einu tvö sveitarfélög sameinuð, það er bara ákvörðun (Gripið fram í.) sem er búið að taka. Það er ef sveitarstjórn er óstarfhæf, já. Það er ekki hægt að víkja frá greininni í kaflanum um sameiningu sveitarfélaga. Það er ekki hægt. Það er þá hægt að víkja frá kaflanum um íbúasamráðið og þess háttar, allt.

Það er alger óþarfi þegar við vitum hver vandamálin eru varðandi fundarsköp, að geta tekið þátt í fjarfundi, bókað með stuttum fyrirvara og tekið ákvarðanir með styttri fyrirvara o.s.frv., að veita heimild til að víkja mögulega frá öllum ákvæðum sveitarstjórnarlaga. Þegar maður les bókstaf þessarar tillögu er hægt að skilja hana þannig. Það er einfaldlega þannig. Ef tilgangurinn er að rýmka til með fundarsköp og fjarfundi o.s.frv. þá teljum við það upp. Sveitarstjórn geti beðið um að víkja frá ákvæðum um fundarsköp og um fjarfundi o.s.frv.