150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[17:51]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er minn skilningur á þessum breytingum að ekki sé verið að tryggja það að sveitarstjórn geti óskað eftir að víkja frá tilteknum kafla eða greinum sveitarstjórnarlaga, alls ekki. Það er verið að mæta ákveðnum aðstæðum, tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga um stjórn sveitarfélags, til að tryggja að sveitarstjórn sé starfhæf við neyðarástand. Þá hlýtur að þurfa að tiltaka þær ástæður eða þær aðstæður sem geta komið upp í samþykktum sveitarstjórnar, hverrar sveitarstjórnar fyrir sig. Jú, vegna þess að þær samþykktir byggja á sveitarstjórnarlögum. (Gripið fram í.) Það er ekki verið að víkja að því að það sé hægt að koma sér hjá einhverjum greinum sveitarstjórnarlaga. (Gripið fram í.) Það er alla vega minn skilningur í þessu. Þetta er ekki bein heimild, heldur snýst þetta um að stjórn sveitarfélags verði starfhæf og hún verður aldrei starfhæf nema hún sé skipuð alla vega meiri hluta sveitarstjórnar eða einhverjum ákveðnum fjölda. Þeir geta ekki komist hjá því. Segjum bara að það séu sjö fulltrúar í sveitarstjórn og það vantar fjóra, er hún ekki starfhæf. Það er ekki í neinu verið að víkja sér undan einhverjum ákvæðum. Sveitarstjórn getur ekki sótt um að vera undanþegin 45. gr. sveitarstjórnarlaga. Það er bara ekki hægt, ekki samkvæmt þessu.