150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[17:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ég sé að fatta af hverju þessi misskilningur er í gangi á milli okkar. Frumvarpið er lagt fram með einu ákveðnu markmiði sem er kannski verið að reyna að lýsa í ræðum og í andsvörum, en texti frumvarpsins segir einfaldlega allt annað. Það er hægt að skilja texta frumvarpsins á allt annan hátt. Það sé hægt að víkja frá einmitt ákveðnum lagagreinum og köflum sveitarstjórnarlaga til að ná þeim markmiðum sem verið er að lista upp í greinargerð frumvarpsins. Ef það ætti að ná þeim markmiðum sem standa í greinargerðinni þarf að víkja frá ákveðnum greinum eða málsgreinum eða setningum í lögunum. Það er bara þannig. Það er að víkja frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga. Ég veit ekki hvaða ákvæði eru ekki greinar, málsgreinar og töluliðir og allt það sem er í sveitarstjórnarlögum, hvað annað er í sveitarstjórnarlögum sem er hægt að víkja frá sem er ekki lagagreinarnar sjálfar.

Þarna held ég misskilningurinn liggi. Þessi texti segir „ákvæðum sveitarstjórnarlaga við stjórn sveitarfélags til að tryggja að sveitarstjórn sé starfhæf“. Eins og hv. þingmaður bendir á er þar meiri hluti … (HSK: Ákvæðum sveitarstjórnarlaga við stjórn.) Já, það er ýmislegt sem þarf að huga að við stjórn sveitarfélagsins, fullt af ákvæðum um það. Flest ákvæðin gilda á einhvern hátt um það hvernig sveitarfélögum er stjórnað á einn eða annan hátt. Þess vegna er þetta gríðarlega ónákvæmt og algerlega ólæsilegt í rauninni að reyna að giska á við hvaða lagagrein er átt eða hvaða málsgrein eða tölulið. Á þetta við um stjórn sveitarfélagsins samkvæmt þessu eða ekki? Gæti ég sloppið með að fara fram hjá þessu eða ekki? Í staðinn á einfaldlega að tiltaka það: Það er þessi grein, þessi málsliður, þessi kafli, (Forseti hringir.) til að koma í veg fyrir misskilning sem gæti orðið um aðrar greinar sem einhverjum gæti á einhverjum tímapunkti í ókunnugri framtíð dottið í hug að víkja frá af því að (Forseti hringir.) mögulega getur hann það.

(Forseti (HHG): Forseti biður hv. þingmenn um að gæta að ræðutíma.)