150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[18:19]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Grundvallarmisskilningurinn okkar á milli er að við erum ekki að veita heimild til að víkja frá þessum samþykktum. Við erum að veita heimild til að víkja frá þessum lögum, það er bara kýrskýrt. Ef við ætlum að veita sveitarstjórnum heimild til að víkja einfaldlega frá samþykktum sínum, fundarsköpum sem þær hafa samþykkt o.s.frv., ef við ætlum að gefa þeim tímabundna heimild til að víkja frá því, þá stæði það hér, tímabundna heimild frá samþykktum sveitarfélaga eins og nánar er tilgreint í lögum um sveitarfélög, en það stendur ekki hér. Það stendur „tilteknum ákvæðum“, þ.e. lagaákvæðum, lagagreinum sveitarstjórnarlaga. Svo kemur fram í greinargerðinni, eins og ég kom inn á í ræðu minni, að það er ekki tilgreint hvaða lagagreinar sveitarstjórnarlaga er verið að veita heimild til að veita undanþágur frá. Það er vandamálið.

Þetta snýst ekki um að ég sé á móti því að sveitarstjórnir landsins geti ákveðið tímabundið að víkja frá fundarsköpum. Ég get alveg séð málefnaleg rök fyrir því. Ég get ekki séð málefnaleg rök fyrir því að ríkisstjórn ákveði að ráðherra fái heimild til þess að víkja úr gildi tímabundið hverju einasta ákvæði í sveitarstjórnarlögum. Það er bara mjög skýrt. Hann þarf vissulega að telja þau upp. Kannski ákveður ekki þessi ráðherra en annar ráðherra í framtíðinni að honum finnist það tefja fyrir ákvörðunartöku að minni hlutinn þurfi að vera upplýstur um hvað ákvörðunartakan standi fyrir. Það er eitthvað sem væri hægt að taka bara út, t.d. hversu margir sveitarstjórnarfulltrúar eru í hverju sveitarfélagi. Það væri hægt að taka það út líka samkvæmt þessum lögum. Það kemur mjög skýrt fram sú ætlun löggjafans að gefa ráðherra heimild til að víkja úr gildi óskilgreindum fjölda og algerlega óskilgreindum tegundum ákvæða laga um sveitarstjórnir, ekki samþykktir.