150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[18:26]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Það sem við höfum áhyggjur af eru frekir einstaklingar sem koma til með að sitja á ráðherrastól. Við þekkjum það að á þarsíðasta kjörtímabili, ég held a.m.k. að það hafi verið á kjörtímabilinu 2013–2016, ákvað upp á sitt einsdæmi sá hæstv. utanríkisráðherra sem þá var að senda bréf til Brussel til að slíta aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Hver hefði trúað því áður en það gerðist að ráðherra myndi gerast svo frekur eftir að það ferli var sett af stað með ályktun þingsins? Ráðherra reyndi að koma breytingu á þeirri þingsályktunartillögu í gegnum þingið og hvað gerði hann þegar hann gat það ekki? Hann fór bara einn af stað, sendi bréf og sagði: Það er búið að slíta viðræðum.

Að sjálfsögðu verða hér frekir ráðherrar af og til sem vilja fá að ráða. Við þekkjum það og sporin hræða. Þetta er nærtækt dæmi á Íslandi.

Það eina sem við erum að biðja um er að tilgangi þessara laga verði náð. Það er hægt að gera það með því að samþykkja tillögu sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson hefur lagt fram sem breytingartillögu við frumvarpið og það er búið að fá vilyrði fyrir því að farið verði yfir það í nefndinni. Það þarf bara að afmarka hvaða heimildir þetta eru. Er það eitthvað erfitt? Nei, það er ekki erfitt. Það kemur fram í greinargerðinni að frumvarpið var sett af stað vegna þess að sveitarstjórnirnar sögðu að þær þyrftu ákveðið svigrúm til að geta sinnt fundarhaldi sínu. Það er það sem þarf að gera. Gerum það þá, gerum það sem þarf að gera og afmörkum það þannig að valdheimildirnar séu ekki svona víðtækar og bjóði ekki upp á mögulegt gerræði sem við sjáum ekki fyrir, inn í framtíðina. Það er það fyrsta, að afmarka það. Ef það er vel afmarkað þarf ekki endilega að tímasetja þetta en ef menn ætla ekki að gefa sér tíma núna til að afmarka hvaða heimildir ráðherra hefur til að heimila sveitarstjórnum að víkja frá lögum um sveitarstjórnir verður að setja sólarlagsákvæði. Þá verður að setja tímaafmörkun fyrir þær tilteknu hremmingar sem við stöndum frammi fyrir vegna kórónuveirunnar þannig að samhliða sé strax hægt að fara að finna út úr því hvað þarf nákvæmlega að vera til staðar til að þetta virki og bæta úr því. Það er skiljanlegt að menn vilji klára þetta hratt en þá er hægt að gera hitt samhliða vegna þess að búið verði að setja inn sólarlagsákvæði eða hafa þessi lög bara tímabundin. Það væri hægt að gera það. Ef menn vilja hvorugt gera, segjast ekki hafa tíma til þess og vilja ekki heldur sólarlagsákvæði, eru menn að senda inn í framtíðina mjög víðtækar heimildir sem við sjáum engan veginn fyrir í dag hvernig hægt væri að misnota af því að svo skammur tími er til að vinna þetta vel. Við munum aftur og aftur fá freka ráðherra sem leita leiða til að túlka lögin eftir sínu höfði. Það er það sem var gert. Áðurnefndur hæstv. utanríkisráðherra óskaði eftir greinargerð um hvers virði ályktanir þingsins væru og notaði þau minnisblöð til að réttlæta það að fara fram hjá þinginu sem enginn hefði búist við fyrr en hann gerði það. Það er akkúrat það sem við erum að vara við.

Förum aðeins í greinargerðina. Á bls. 2. er atriði sem auðveldlega væri hægt að túlka af frekum samgönguráðherra framtíðarinnar sem vill fá að gera hlutina eftir sínu höfði og er í samskiptum við sveitarstjórn sem vill fá að gera eitthvað sem hún annars gæti ekki gert. Sjáum hvernig hægt væri að mistúlka þetta eða fá bara túlkun og fara af stað. Hver ætlar þá að stoppa ráðherra? Sjáum hvað hægt er að gera.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er lögð til sú breyting á 131. gr. sveitarstjórnarlaga að ráðherra sveitarstjórnarmála geti veitt einstökum sveitarfélögum þar sem neyðarástand varir, t.d. vegna náttúruhamfara, eða öllum sveitarfélögum, heimild til að haga stjórnsýslu sinni þannig að vikið sé frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga í allt að fjóra mánuði í senn. Ekki er tekið fram í frumvarpsgreininni til hvaða lagaákvæða sveitarstjórnarlaga slík ákvörðun geti náð en það gæti oltið á aðstæðum í hverju tilviki.“

Það er ekkert nánar útskýrt með aðstæðurnar sem gæti oltið á, til hvaða greina þær ná. Þá er bara hægt að túlka það og þá hefur ráðherra fengið tækifæri til að túlka aðstæður og meta eftir sínu höfði sem hann gæti fengið lögfræðiálit fyrir. Eins og Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, nefndi á sínum tíma er mjög ódýrt að panta minnisblað eða lögfræðiálit og það er ítrekað gert. Það er hægt að panta lögfræðiálit til að styðja sitt mál.

Áfram held ég, með leyfi forseta:

„Gera má ráð fyrir að helst komi til skoðunar ákvæði laganna er varða fyrirkomulag funda og lögmælta fresti, t.d. um skil ársreikninga og fjárhagsáætlana.“

Talað er um það sem helst komi til skoðunar en eitthvað annað gæti komið til skoðunar sem við vitum ekki hvað er. Þarna er aftur opnað á svigrúmið.

Áfram, með leyfi forseta:

„Einnig mætti skoða að víkja tímabundið frá verkaskiptingu innan stjórnsýslunnar, svo sem verkaskiptingu milli nefnda og reglum um valdaframsal til fullnaðarafgreiðslu mála.“

Meiri hlutinn gæti notað slíkar kringumstæður til að taka til sín meiri völd, hafa vald yfir verkaskiptingu milli nefnda og reglum um valdaframsal til fullnaðarafgreiðslu mála. Ég er ekki alveg nýr í pólitík og veit að til eru alls konar hlutir sem hægt er að gera þegar kemur að því að færa völd til, færa til fullnaðarafgreiðslu o.s.frv. — Ég sé að hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir ætlar að koma upp og svara þessu, hún þekkir sveitarstjórnarlögin betur en ég. Það væri gott að fá svar við þessu því að þarna sé ég strax einn möguleika sem kannski væri hægt að skjóta loku fyrir. Það væri ágætt ef hv. þingmaður gæti í leiðinni skotið loku fyrir hina möguleikana sem ég er að nefna.

Áfram, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að ákvæðið verði hluti af viðbragðsáætlun ráðuneytisins, og að ráðuneytið líti sérstaklega til reglunnar þegar neyðarstig almannavarna hefur verið virkjað.“

Hér er verið að segja að neyðarstig almannavarna þurfi ekki að hafa verið virkjað til að virkja þetta ákvæði. Það er litið sérstaklega til þess sem þýðir að menn mega líka líta til þess þó að það sé ekki þannig. — Hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir hristir hausinn en ég get ekki séð hvernig hægt væri að túlka þetta öðruvísi. Það verður örugglega mjög auðvelt að finna einhvern lögfræðing sem segir: Jú. Af því að hér segir að sérstaklega verði litið til reglunnar þegar neyðarstig almannavarna hefur verið virkjað má það að sjálfsögðu þegar svo er ekki. Þá getur ákvæðið komið til skoðunar að beiðni sveitarfélags þannig að sveitarfélag geti beðið um það, eins og hér hefur verið nefnt, þar sem neyðarástand varir. Einnig er gert ráð fyrir að ráðuneytið leiti afstöðu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þá komum við aftur að því að leita verði samráðs Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ferlið er þannig. Ráðherra ákveður, og í þessu tilfelli er nefnt að það gæti verið að beiðni sveitarfélagsins, og hann þarf að leita eftir afstöðu. Það er það sem samráð þýðir. Þegar fólk les í lagatexta að hafa þurfi samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga heldur það að samráð sé annað en það er. Það hélt ég líka áður en ég lærði þetta hér innan húss. Samráð felst ekki í því að allir komi að raunverulegri ákvarðanatöku. Menn fá bara að koma að málinu og leggja sína afstöðu á borðið. Það þarf ekki að taka tillit til hennar. Ráðherra þarf ekki að taka tillit til afstöðu Sambands íslenskra sveitarfélaga við ákvörðun sína. Þá er það bara skýrt sagt, í frumvarpstextanum sjálfum er talað um samráð og hér er alveg skýrt hvað samráð þýðir. Samráðið felst í því að leita eftir afstöðu Sambands íslenskra sveitarfélaga áður en ákvörðun er tekin um hvaða reglum sveitarstjórnarlaga þarf að víkja tímabundið frá. Með því einu að lesa örlítið í gegnum þetta mjög stutta frumvarp, tvær blaðsíður, sér maður strax möguleikana. Ég þekki sveitarstjórnarlögin lítið en ég sé strax möguleika á því að frekur ráðherra hefði töluvert svigrúm til að túlka þetta eftir sínu höfði. Sporin hræða því að ráðherra hefur leyft sér að fá lögfræðiálit um að hann þurfi ekki að virða vilja þingsins þegar kemur að stærstu aðildarumsókn Íslands að alþjóðasamstarfi. Við skulum ekki halda að frekir ráðherrar geti ekki nýtt sér glufur í þessu til að komast upp með það sem þeim sýnist eða komast upp með ýmsa hluti sem við viljum ekki að þeir komist upp með sem og gerræðisákvarðanir þegar kemur að sveitarstjórnarstiginu.