150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[18:36]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég er vissulega ekki lögfræðimenntuð en ég lít þannig á að neyðarástand sé algjör grundvallarforsenda fyrir því að þetta ákvæði verði virkjað, enda er fyrirsögn greinarinnar „Neyðarástand í sveitarfélagi“. Hv. þingmaður las upp ákvæði um að ráðherra skuli líta til þess að komið sé á almannavarnaástand og beri þá skylda til að kanna hvort þörf sé á frávikum en ekki öfugt. Ég ítreka að ég lít þannig á að þar með sé lögð sú skylda á ráðherra að líta til þess hvort þörf sé á frávikum við sveitarstjórnarlögin vegna þess að neyðarástand hefur verið virkjað.

Varðandi verkaskiptingu milli nefnda átta ég mig ekki á því hvernig breyting á verkaskiptingu milli nefnda, það að einhver málaflokkur sé hugsanlega færður frá einni nefnd til annarrar vegna anna á einhverju sviði, getur haft áhrif á valdajafnvægi í sveitarstjórn í neyðarástandi. Ég bið um frekari rökstuðning fyrir því. Eins er fullnaðarafgreiðsla yfirleitt virkjuð til að flýta ferlum þar sem nefndum er heimilað að afgreiða t.d. skipulags- eða leyfismál í staðinn fyrir (Forseti hringir.) að það þurfi að fara fyrir bæði byggðarráð og bæjarstjórn ef þannig vill til.