150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[18:38]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þekki þetta hér inni, bara það að skipta einum eða tveimur nefndarmönnum úr einni nefnd í aðra breytir valdajafnvæginu. Það breytir því hvernig menn geta réttlætt ákvarðanir nefndarinnar. Það breytir því sem hefur verið samið um áður. Það breytir því hvað er á endanum afgreitt. Þetta skiptir allt máli í pólitísku samhengi. (LínS: Það hefur ekkert með lögin að gera.) Nei, en þarna er verið að veita heimild. Ég er bara að nefna að þetta er hægt. Þegar ástandið er orðið svona er hægt að gera alls konar hluti sem annars væri ekki hægt að gera. Í þessu tilfelli færast þá völd til þeirra sem hafa þau, þ.e. meiri völd færast til meiri hlutans til að gera alls konar hluti hvað þetta varðar. Hv. þingmaður þekkir sveitarstjórnarlögin betur en ég og hvernig þau eru iðkuð. Ég sé bara strax möguleika í þessu. Ég sé þá möguleika þegar verið er að tala um verkaskiptingu milli nefnda að hægt sé að svissa til og reglur um valdaframsal til fullnaðarafgreiðslu mála þegar verið er að færa þetta til og setja heimildir um það og að það sé ráðherra og síðan meiri hluti sveitarstjórnar sem á endanum muni framfylgja þessu. Það er ráðherra sem ræður en síðan fá sveitarstjórnirnar valdið þannig að þessi staða getur komið upp.

Hvað með önnur atriði sem ég nefndi? Það kemur mjög skýrt fram hér varðandi það að neyðarstig almannavarna hafi verið virkjað en það þarf ekki að vera neyðarstig almannavarna, það er bara tiltekið. Það gæti verið annars konar neyðarástand, það er það sem segir í texta laganna, það er talað um „við neyðarástand“. Það þarf ekki að vera neyðarástand almannavarna, það gæti verið efnahagslegt neyðarástand eða neyðarástand í sveitarfélaginu. Er það neyðarástand þegar sveitarfélag er orðið það illa skuldsett að það er ekki lengur starfhæft eða getur ekki sinnt öllum skyldum sínum? Er það neyðarástand? Sumir myndu kannski segja það, það er hægt (Forseti hringir.) að túlka það sem neyðarástand. Hvað þarf þá að gera? Það þarf einhvern veginn að tryggja fjárhagslegan grundvöll sveitarfélagsins. Þarf að virkja? (Forseti hringir.) Kannski þarf að gera það. Þarf að sameina það öðru sveitarfélagi sem er ríkara? Kannski þarf að gera það. Það eru alls konar möguleikar sem eru opnir og við vitum ekki hvernig (Forseti hringir.) verða misnotaðir.

(Forseti (WÞÞ): Forseti minnir hv. þingmann á að virða ræðutíma.)