150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[18:41]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég sé ekki hverju frávik frá sveitarstjórnarlögum breyta um skipan nefnda. Eitt er skipan nefnda, annað er verkefni nefnda. (JÞÓ: Já.) Það kann vel að vera að neyðarástand sé ekki skilgreint sérstaklega í þessu frumvarpi en að mínu viti er neyðarástand skilgreint í lögum um almannavarnir. Það er þó eitt af því sem ég er alveg tilbúin til að kanna nánar en í mínum huga er enginn vafi á því að verið er að tala um neyðarástand samkvæmt því. Hins vegar eru til sérstök lög um fjármál sveitarfélaga og þar er mjög skýrt kveðið á um það hvernig farið er að ef sveitarfélagið er óstarfhæft vegna fjármálastöðu og hvernig því er fylgt eftir að sveitarfélög starfi eftir reglum um fjármál sveitarfélaga og ýmsu sem sveitarfélög þurfa að fylgja í þeim efnum. Ég á hins vegar mjög erfitt með að átta mig á því hvernig ráðherra getur komið sínum stefnumálum fram í sveitarfélagi í neyðarástandi sem er eins líklegt að sé stýrt af sveitarstjórn sem kemur úr allt öðrum stjórnmálaflokki en ráðherrann (JÞÓ: Gæti verið sá sami.) — en gæti vissulega verið sá sami. Þarna er, eins og fram kemur, einmitt talað um samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og heildarhagsmuni sveitarfélaga. Vissulega getur verið um að ræða eitt sveitarfélag í neyðarástandi en það er eins líklegt að þau séu fleiri samtímis ef almannavarnaástand er uppi í samfélaginu.