150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[18:43]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Þingmaður segir: Ég sé ekki alveg hvernig þetta eða hitt getur gerst og að það kunni að vera að neyðarástand sé ekki vel skilgreint í þessum lögum. Eigum við þá ekki bara að skilgreina það? Það er greinilegt að ekki er alveg ljóst að verið sé að tala um neyðarstig almannavarna. Er þá ekki hægt að laga það? Þarna er eitt lítið atriði sem ég sá þar sem ég sat og hlustaði á ræðurnar og las frumvarpið. Ég sá að þarna væri eitt greinilega ekki nógu vel athugað. Getum við ekki lagað það? Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson var í nefndinni og fylgdist með málinu þegar nefndin ræddi það í upphafi. Hann er kominn með fullt af athugasemdum. Við erum ekki að gera þetta til að vera með leiðindi. Við sjáum möguleika á því að þetta vald verði misnotað. Það getur tekið smátíma að laga það en það er strax hægt að laga ákveðna þætti. Ég vona innilega að nefndin taki það sem við erum að nefna til málefnalegrar skoðunar.

Einmitt á svona tímum, þegar neyðarástand ríkir, setja menn lög í tímapressu og það er grundvallarregla varðandi ákvarðanatöku að þegar þarf að taka ákvarðanir hratt eru gerð mistök. Við vitum það. Reynum að skjóta loku fyrir flest mistökin á málefnalegum forsendum, eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson hefur bent á, og setjum sólarlagsákvæði þannig að þetta gildi fram í ágúst þar sem allar ábendingar eru um að þetta hættuástand verði yfirstaðið, einhvern tímann í júlí, og þá verði bara hægt að framlengja þann tíma. Festum þetta ekki í sessi svona heldur vinnum betur að því til að skapa betri lagaumgjörð um þetta sem er síður hægt að misnota. Þegar fólk tekur ákvarðanir í flýti gerir það mistök, líka þingið.