150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[18:58]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég rakst á nokkur önnur atriði. Það er áhugavert að ekki sé sólarlagsákvæði í þessu frumvarpi, í frumvarpi sem veitir möguleika á þessum víðtæku heimildum og túlkun á þeim.

Í lokin segir, með leyfi forseta:

„Vert er að taka fram að í frumvarpi sem ráðherra hyggst leggja fram á vorþingi um breytingar á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga er m.a. gert ráð fyrir rýmri heimildum til sveitarstjórna til að heimila fjarfundi og ýmsum fleiri frávikum frá meginreglum laganna um fyrirkomulag stjórnsýslu. Það frumvarp sem hér er lagt fram til að bregðast við neyðarástandi vegna Covid-19 veirusjúkdómsins er í öllum meginatriðum í ágætu samræmi við áherslur í því frumvarpi.“

Ráðherra sveitarstjórnarmála er að fara að leggja fram frumvarp sem er í öllum meginatriðum í samræmi við það sem við erum að samþykkja hér og það er verið að leggja þetta fram til að bregðast við Covid-19 veirunni en samt sem áður á að skilja það eftir með fullum breytingum inn í framtíðina.

Ef þetta styður ekki við það málefnalega sjónarmið að sett sé tímabundið ákvæði í staðinn fyrir að skilja þetta svona eftir, unnið í flýti og að öllum líkindum ofurselt mistökum veit ég ekki hvað.