150. löggjafarþing — 73. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[11:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir góðar undirtektir í þessu máli. Varðandi virðisaukaskattsgjalddaga vil ég ekki útiloka að það verði gripið til einhverra aðgerða, t.d. til að dreifa gjalddögum, en við höfum enga slíka ákvörðun tekið. Við erum hér að grípa til aðgerða sem fresta um 22 milljörðum, eins og ég hef komið inn á, og við þurfum að taka tillit til heildarumfangs slíkra aðgerða og hvernig samspil virðisaukaskattsfrestunar og þessarar aðgerðar gæti komið út þegar á heildina er litið.

Ég vil svara fyrirspurn um atvinnumissi á þann veg að ríkisstjórnin vinnur hörðum höndum að útfærslu sem svipar til þess sem við höfum áður séð þegar niðursveifla varð í efnahagslífinu. Það er verkefni sem félagsmálaráðherra sinnir nú og það mun ekki langur tími líða þar til hann mun kynna hugmyndir sínar í því efni.

Varðandi afborganir heimilanna af lánum myndi ég vilja segja í fyrsta lagi að enn sem komið er, fyrir utan það sem snertir atvinnumissi, þá sjáum við ekki högg hjá heimilunum. Við höfum engar sambærilegar aðstæður núna eins og átti við í hruninu þegar við fengum mikið verðbólguskot og vextir voru í hæstu hæðum. Við erum eiginlega þveröfugt við það með í dag lægstu stöðu vaxta sem við höfum séð og mikinn kaupmátt og nýfrágengna kjarasamninga. Hins vegar er við því að búast að slíkar aðstæður geti skapast að það verði þörf á fyrirgreiðslu (Forseti hringir.) í fjármálakerfinu og við vinnum að samkomulagi um það eftir því sem hægt er. Ég get komið aðeins inn á það í síðara andsvari.