150. löggjafarþing — 73. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[11:21]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Nú er það svo að atvinnuleysisbætur eru í sögulegu lágmarki miðað við lágmarkstekjur eða lágmarkstaxta og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort honum finnist koma til greina að hækka atvinnuleysisbætur í þessu ástandi og hvort rædd hafi verið innan ríkisstjórnarinnar staða fólksins sem vinnur í skemmtanageiranum, einyrkjanna, listamannanna, sem hefur misst tekjur vegna þess að það hefur verið ákveðið að fresta tónleikum, árshátíðum o.s.frv. Þetta er fólk sem hefur þetta að lifibrauði sínu og getur ekki gengið að sjóðum vísum eins og aðrir. Hefur hæstv. ríkisstjórn hugað að stöðu þessa fólks?