150. löggjafarþing — 73. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[11:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra framsöguna og þessa umræðu sem ég ætla ekki að lengja. Við í Miðflokknum styðjum þetta mál eins og komið hefur fram. Hins vegar held ég að þessi aðgerð ein og sér ráði ekki úrslitum. Ekki má gleyma heimilunum í landinu, og trúverðug úrræði varðandi vaxandi atvinnuleysi verða að koma sem allra fyrst fram. Ég fagna því sem hæstv. ráðherra nefndi hér um hugsanleg úrræði varðandi séreignarsparnað. Það er skilvirk aðgerð og kostar ríkissjóð ekki eins og réttilega kom fram.

Einnig er mikilvægt í okkar huga að menn fylgist mjög vel með gengisþróuninni og grípi þá inn í ef sýnt þykir að gengið komi til með að falla óþægilega mikið vegna þess að það hefur gríðarleg áhrif á heimilin í landinu og lán landsmanna. Hækkun verðbólgu er nokkuð sem við viljum allra síst sjá í þessum aðstæðum.

Maður veltir öðrum gjöldum fyrir sér í þessari umræðu. Hér er ekkert minnst á þau. Hæstv. ráðherra minntist á gistináttaskattinn. Svo langt sem það nær er það ágætt en það ræður hins vegar engum úrslitum vegna þess að gistináttagjaldið er ekki greitt af gistingu sem er ekki til staðar. Þar erum við kannski komin að kjarna málsins. Stóra vandamálið er að fyrirsjáanlega verða litlar sem engar tekjur í ferðaþjónustunni og þess vegna er afar brýnt að menn horfi til þess. Þetta er ein okkar stærsta atvinnugrein og ef hún verður fyrir gríðarlegu tekjutapi sjá allir hvaða afleiðingar geta orðið.

Í þessum efnum vegur ferðabann Bandaríkjanna mjög þungt, ákvörðun sem kom algjörlega flatt upp á okkur af vinaþjóð okkar til margra ára, samstarfsþjóð NATO og í varnarsamningi Íslands. Þetta er mál sem verður að leysa, herra forseti, að koma okkur af þessum ferðabannslista sem allra fyrst. Hver dagur er gríðarlega kostnaðarsamar fyrir íslenskt efnahagslíf. Það er talað um 30 daga og það er gríðarlegt tjón fyrir okkur. Ég hjó eftir því að hæstv. forsætisráðherra hefur óskað eftir símafundi við Bandaríkjaforseta um málið. Það er gott og vel, en maður spyr: Hefur forseti Bandaríkjanna yfir höfuð áhuga á að ræða við forsætisráðherra Íslands, minnugur þess að hingað kom til landsins og sótti okkur heim varaforseti Bandaríkjanna á haustmánuðum og hæstv. forsætisráðherra hafði greinilega mjög takmarkaðan áhuga á að hitta hann? Allir þekkja það vandræðamál og þann vandræðagang sem var á ríkisstjórnarheimilinu í því máli. Hæstv. forsætisráðherra hafði meiri áhuga á að ræða við verkalýðsleiðtoga á Norðurlöndum. Þetta er slæmt innlegg í það að leysa þetta mál, herra forseti, því miður. Auk þess tel ég að ákvörðun utanríkisráðherra um að falla frá samningsbundinni heræfingu gagnvart Bandaríkjunum og varnarsamningi okkar við Bandaríkin hafi verið aðgerð sem muni ekki flýta fyrir því að þetta mál verði leyst.

Satt að segja hef ég verulegar áhyggjur af því að forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafi það ekki til að bera að leysa þetta mál gagnvart Bandaríkjunum í ljósi framkomu þeirra á haustmánuðum sem ég rakti og nú síðast varðandi þessa heræfingu. Eitt af brýnustu úrlausnarefnunum er að reyna að koma okkur af þessum ferðabannslista Bandaríkjanna.