150. löggjafarþing — 73. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[11:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru tvö atriði sem ég vil minnast á. Í fyrsta lagi varðandi gistináttaskattinn: Að sjálfsögðu gerum við okkur grein fyrir því að gistináttagjald verður ekki greitt af tómum herbergjum en þessi atvinnugrein er fyrirsjáanlega í talsverðum þrengingum. Það er þeim mun mikilvægara að gjaldið verði fellt niður af þeim herbergjum sem þó eru í útleigu. Við erum ekki að halda því fram að hér sé um neitt stærri aðgerð að ræða en við blasir. Gjaldið hefur verið að skila rúmum milljarði, rétt þar um bil, ef ég man rétt, og við gerum ráð fyrir því að með þessu megi skilja eftir hjá þessari starfsemi nokkur hundruð milljónir og ég hefði haldið að það munaði um það. En það sem meira er þá erum við að vonast til þess að þetta verði tímabundið ástand, að það birti til um síðir og að gjaldið komi ekki aftur til framkvæmda strax í kjölfarið heldur munum við hjálpa mönnum aðeins að rétta úr kútnum með því að leyfa gjaldinu að liggja óvirku þrátt fyrir að það sé aðeins farið að birta til. Það mun líka skipta máli.

Ég get tekið undir margt af því sem hv. þingmaður sagði um mikilvægi þess að koma aftur á tengingu við Bandaríkin. Ég held hins vegar að forysta ríkisstjórnarinnar í þeim samskiptum sé mjög vel fær til að gera allt sem í okkar valdi stendur til að halda okkar hagsmunum á lofti. Það verður að fordæma þessa niðurstöðu Bandaríkjamanna að taka einhliða og fyrirvaralaust svo afdrifaríka ákvörðun sem virðist ganga langt út fyrir það sem aðstæður kalla á. Tjónið sem af því hlýst er ómælt og ekki tímabært að reyna einu sinni að gera sér almennilega grein fyrir því. Og því lengur sem þetta varir, því meira verður tjónið. Þess vegna er búið að boða til fundar með utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem fer fram í Bandaríkjunum í næstu viku og við munum halda áfram að halda á lofti okkar hagsmunamálum.