150. löggjafarþing — 73. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[11:58]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjald, frestun gjalddaga. Flokkur fólksins styður það heils hugar sem fyrsta skref, sem lítið skref í því sem þarf að gera út frá þeirri vá sem skapast hefur vegna Covid-19 veirunnar. Við verðum að passa upp á að fara ekki á taugum. Við ættum að læra það af aðgerðum forseta Bandaríkjanna, þegar hann setur á þetta flugbann, að framkvæma ekki hlutina í flýti án hugsunar og án þess að grundvalla vel afleiðingar þess. Okkur ber skylda til að íhuga hlutina vel og passa vel upp á einyrkja í ferðaþjónustu og í tengslum við ferðaþjónustu. Þetta eru þeir einstaklingar í atvinnurekstri sem eru viðkvæmastir fyrir því ef atvinnulífið stöðvast. Við verðum að passa upp á að þeir geti lifað af þennan tíma og komið sterkir inn aftur. Þá ber okkur líka skylda, sem hefur kannski farið fram hjá flestum, og enn er ekki kominn tími á, til að passa upp á þá sem eru veikastir fyrir og geta ekki björg sér veitt, eru veikir heima og eru illa staddir fjárhagslega vegna þess að þeir hafa ekki lífeyrislaun eða aðra framfærslu til að standa undir mánaðarlegum útgjöldum heldur tóra frá mánuði til mánaðar á gjöfum frá hjálparstofnunum. Það er ömurlegt til þess að vita að það skuli vera svo stór hópur.

Í þessu samhengi má líka benda á að fram undan virðist ætla að verða gífurlegt álag á heilsugæslu og á sjúkrastofnunum, sérstaklega þegar við horfum til þess að á einni kvöldstund voru 12.000 manns búnir að skrá sig í sýnatöku hjá Íslenskri erfðagreiningu. En ég bara bendi fólki sem er með rafræn skilríki á að fara inn á heilsuvera.is. Þar á að efla stórlega, eftir því sem mér skilst, aðgang að læknum og þar er hægt að endurnýja lyf og með því að fara þar inn er hægt að sleppa við að fara á heilsugæslu þar sem er meiri smithætta. Ég hvet alla þá sem geta til að nýta sér þetta og kynna sér það vegna þess að þarna eru mjög góðar upplýsingar og þarna er hægt að endurnýja vottorð, lyfseðla og ná sambandi við lækni á mjög einfaldan og þægilegan hátt.

Ég mótmæli harðlega og segi: Það getur ekki staðist, það sem kom fram í ræðu hv. þingmanns áðan, að fresta launahækkunum. Launahækkanir sem samið var um voru fyrir það fólk sem er á lægstu laununum og því veitir örugglega ekki af því að fá þær launahækkanir. Ég sé enga lausn í því að fresta þeim. Það er búið að semja og fólkið sem þar er undir á lægstu launum á að fá sínar launahækkanir.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra en ég vona að þetta sé aðeins fyrsta skrefið og að við berum gæfu til að gera hlutina vel og vendilega þannig að við förum ekki fram úr okkur og völdum meira tjóni en þörf er á. Þá held ég að við eigum öll að geta komist í gegnum þetta og sérstaklega ef við stöndum saman.