150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

aðgerðir í efnahagsmálum.

[13:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég ætla að byrja á því að hvetja hæstv. fjármálaráðherra til dáða og óska honum góðs gengis í að fást við þau stóru verkefni sem eru fram undan. Við í Miðflokknum munum aðstoða ríkisstjórnina við að koma góðum málum sem hraðast í gegn og raunar tel ég að við ættum eingöngu að vera að fást við mál sem varða það ástand sem uppi er þessa dagana hér í þinginu en ekki verja tíma í að setja önnur mál í gegn. Ríkisstjórnir landa um allan heim hafa verið að tilkynna um mjög umfangsmiklar aðgerðir til að bregðast við ástandinu. Ég geri ráð fyrir að ríkisstjórn Íslands muni á næstu dögum kynna viðbótaraðgerðir.

Ég ætla að reyna að afmarka fyrirspurnir mínar við þrjú atriði og spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort þess megi vænta að tryggingagjald verði fellt niður út árið. Í öðru lagi hvort vænta megi beins stuðnings frá ríkinu við fyrirtæki svo að þau geti haldið fólki í vinnu yfir sumarið, alla vega út vorið og jafnvel í gegnum sumarið, en þurfi ekki að segja upp fólki og valda þar með þeim mun meiri kostnaði fyrir ríkissjóð og efnahagslífið í framhaldinu. Kemur beinn efnahagslegur stuðningur til fyrirtækja til viðbótar við það sem þegar hefur verið rætt? Í þriðja lagi: Hvaða áform eru uppi um stuðning við einyrkja, þá sem eru í vinnu hjá sjálfum sér og þar af leiðandi í nokkuð sérstakri aðstöðu ef þeir geta ekki starfað áfram næstu vikur eða mánuði?