150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

aðgerðir í efnahagsmálum.

[13:46]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra sem oddvita stærsta flokksins í ríkisstjórninni hvort við megum vænta þess að stjórnin muni í auknum mæli gefa til kynna hvers kunni að vera að vænta varðandi frekari aðgerðir til að bregðast við heilbrigðisástandinu, lokanir og slíkt. Nokkrum skólum hefur verið lokað eftir að upp hafa komið smit og fólk jafnvel sent heim í sóttkví. Svo fáum við tölur um það eða kenningar að u.þ.b. 1% fólks, a.m.k. hér á höfuðborgarsvæðinu, kunni að vera smitað. Ef sú væri raunin, ef það er 1% og tiltölulega jafndreift, þýðir það að í 500 manna skóla eru 99,34% líkur á að einhver sé smitaður, með öðrum orðum nánast öruggt. Því veltir maður fyrir sér hvort ekki megi búast við því að ríkisstjórnin geri kröfu um frekari lokanir og hvort ríkisstjórnin sé þá búin að búa sig undir það með stuðningi við foreldra sem munu þurfa að vera heima til að gæta barna sinna.