150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

aðgerðir í efnahagsmálum.

[13:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er komið inn á ráðstafanir sem eru kannski ekki á forræði míns ráðuneytis en ég get svo sem tjáð mig um það svo langt sem ég veit. Við hlítum ráðleggingum okkar besta fólks um viðbrögð við ástandinu. Við Íslendingar erum að skima töluvert mikið meira en allar aðrar þjóðir eru að gera til að reyna að hafa réttar upplýsingar um það hversu útbreitt smitið er orðið. Sérstaklega varðandi skólakerfið hafa á undanförnum sólarhringum tekið í gildi nýjar reglur og við sjáum hvernig þær eru þegar farnar að virka. Við erum með háskóla og framhaldsskóla í fjarkennslu og aðrir skólar eru að aðlaga sig að þessu breytta regluverki. Þegar spurt er hvort gengið verði lengra þá ræðst það af framvindu mála og mati á því hversu miklu það mun skila í þeim í þeirri viðleitni okkar að lágmarka áhættuna á því að heilbrigðiskerfið springi við hámarkssmit. Um það snýst þetta, að við getum sinnt þeim sem smitast og sýkjast og verða veikir.