150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

aðstoð við skjólstæðinga TR.

[13:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í þeirri ótrúlegu stöðu sem þjóðfélag okkar er í í dag vegna Covid-19 veirunnar hef ég enn miklar áhyggjur af þeim sem verst eru settir í okkar þjóðfélagi, af fólki sem er í þeirri skelfilegu stöðu að hafa áhyggjur af stöðu sinni vegna veirunnar og þeirrar staðreyndar að það hefur ekki nægan lífeyri frá TR til að standa undir matvælakaupum og öðrum nauðsynjum. Ég spyr því hæstv. félags- og barnamálaráðherra eftir umræðu okkar í síðasta óundirbúna fyrirspurnatíma, og ég vona heitt og innilega að hann sé ekki að fela sig undir pilsfaldi sveitarfélaganna með því að setja allt á þau: Sveitarfélögin eiga að sjá um sína skjólstæðinga en skjólstæðingar hæstv. félags- og barnamálaráðherra eru þeir sem fá greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og þeir sem þar eru undir eru líka með börn og það er hans ráðuneytis að sjá um að það gangi vel.

Ég spyr um Mæðrastyrksnefnd, Hjálparstarf kirkjunnar og Fjölskylduhjálp Íslands. Ætlar ríkisstjórnin að styrkja þessa aðila til þess að þeir geti haldið úti matargjöfum og staðið undir því sem þarf að gera?

Síðan er annað sem hefur gleymst og það eru þeir einstaklingar sem eru úti á landi. Nafli heimsins er ekki hér í Reykjavík. Það er fólk úti á landi sem fær bætur frá Tryggingastofnun ríkisins, öryrkjar og eldri borgarar, sem hefur ekki tækifæri til að hafa samband út af matvælaaðstoð. Hvað á að gera fyrir það fólk? Ég spyr: Tekur hann ekki undir það að við virkjum Mínar síður hjá Tryggingastofnun ríkisins? Gerum það þannig að fólk sem hefur áhyggjur, og veit hvernig á að fara þangað inn, getur farið þangað inn, geti komið áhyggjum sínum á framfæri. Ætlar hann að sjá til þess að styrkja þessa einstaklinga sem þurfa virkilega á því að halda, hvort sem það er fyrir matvælum, lyfjum eða öðru, til að bjarga sér á þessum tímum? Við erum að hjálpa þeim sterku sem eru í fjármálakerfinu. En við megum ekki gleyma þessu fólki.