150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

aðstoð við skjólstæðinga TR.

[13:59]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin og ég styð hann heils hugar í þessu og vona heitt og innilega að þetta komist til framkvæmda og það fljótt. Við verðum líka að horfa aftur í tímann og horfa á söguna. Hvernig var í hruninu? Hverjir voru skildir eftir? Það var þessi hópur. Hann var skertur um 10% en fékk það ekki leiðrétt. Hann er eini hópurinn sem ekki hefur fengið það leiðrétt afturvirkt alla tíð síðan þá. Og þetta er eini hópurinn sem hefur verið lofað aftur og aftur að króna á móti krónu skerðing færi. Það eru enn 65 aurar á móti krónu. Þetta er hópurinn sem hefur verið svikinn hingað til og ég vona svo heitt og innilega að við tökum höndum saman núna og sjáum til þess að sá hópur fái þá þjónustu sem hann á að fá og fái það réttlæti núna.

Ég vil líka fá svar: Ætlar ríkisstjórnin að styrkja þær hjálparstofnanir sem eru með matvælaúthlutun? Ætlar hún að styrkja þær fjárhagslega þannig að fólk geti fengið útbýtt d-vítamíni, c-vítamíni, lýsi og því sem þetta fólk þarf nauðsynlega á að halda og er sennilega ekki oft á innkaupalista þess?