150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

frumvörp um atvinnuleysisbætur.

[14:02]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það eru fordæmalausir tímar. Þetta er líklega sú setning sem hefur hvað oftast heyrst á undanförnum dögum. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur boðað stórar aðgerðir, að það borgi sig að setja meira inn en minna, og er ég honum innilega sammála. Nú fáum við í dag kynningu frá hæstv. félags- og barnamálaráðherra á tveimur málum er varða annars vegar hlutaatvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls og hins vegar mál um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví.

Mig langar að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra út í athugasemdir sem bárust frá ASÍ annars vegar og Samtökum atvinnulífsins hins vegar strax í síðustu viku þegar verið var að semja þessi frumvörp. Frumvarpinu var breytt í meðferð ríkisstjórnar þannig að það virðist eftir breytingar bitna harðast á þeim sem lægstu launin hafa, þeim tekjulægstu. Að hafa þakið 80% á þessu hlutfalli og hafa hámark á greiðslum leiðir til þess að stóru aðilarnir á vinnumarkaði, þ.e. ASÍ og Samtök atvinnulífsins, munu ekki geta mælt með því að þeirra fólk fari í skert starfshlutfall.

Samanlögð laun frá atvinnurekanda og atvinnuleysisbætur mega ekki verða hærri en 80% af launum og hjá einstaklingum á lægstu launum sem eru með heildartekjur fyrir skatt 317.000 fara þær niður í 254.000. Einstaklingur með 400.000 fer niður í 320.000. Þessir hópar, hæstv. ráðherra, geta einfaldlega ekki tekið á sig slíka lækkun.

Þess vegna vil ég byrja á að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið reiknað út við ríkisstjórnarborðið að hafa ekki þær takmarkanir eins og þessir aðilar mæltu eindregið gegn. Mér sýnist að þetta mál verði andvana fætt ef það á að fara svona í gegnum Alþingi.