150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

frumvörp um atvinnuleysisbætur.

[14:07]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og verð að hrósa honum fyrir samráð sem hefur verið kvartað svolítið undan varðandi ríkisstjórnina, að stjórnarandstaðan og þingið sé illa upplýst um það sem er að gerast. Það er ekki hægt að saka hæstv. félagsmálaráðherra um að hafa ekki haft samráð við nefndina yfir helgina þegar þetta var allt að berast.

Það eru nokkrir hópar sem ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Þá vil ég sérstaklega tilgreina námsmenn sem ég hef miklar áhyggjur af. Þeir námsmenn sem ekki eru á námslánum og eiga ekki kost á námslánum en þurfa engu að síður að sjá fyrir sér og fjölskyldum sínum, þurfa að greiða leigu, hafa meðfram fullu námi séð fyrir sér í ferðamannaiðnaði og öðru. Þessi hópur má ekki taka námslán. Þannig eru nú lögin. Ég velti fyrir mér hvort það sé vilji til að breyta þessum reglum.

Sjálfstætt starfandi listamenn hafa orðið fyrir mjög miklum sokknum kostnaði. Við þurfum líka að hugsa um þann hóp. Síðast en ekki síst vil ég spyrja hæstv. ráðherra út í bakvarðasveitina sem nú er verið að kalla inn bæði í heilbrigðiskerfinu og félagslega kerfinu, bakvarðasveit þeirra sem eru mögulega farnir á eftirlaun, hvort það verði tryggt af hálfu ríkisstjórnarinnar að ef eldri borgari eða annar svarar kalli stjórnvalda um að vera í bakvarðasveit og koma inn aftur til starfa í heilbrigðis- eða félagsgeiranum verði hann ekki fyrir skerðingum á sínum tekjum fyrir það að svara kalli stjórnvalda. Getur hæstv. ráðherra lofað því að það verði tryggt að fólk sem svarar svona neyðarkalli stjórnvalda verði ekki verr statt fyrir vikið?