150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

staða námsmanna.

[14:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Nú er fyrirsjáanleg efnahagslægð og kannski ekkert svo ólík þeirri síðustu að ýmsu leyti. Síðast lenti lægðin á heimilum landsins og margar af aðgerðum ríkisstjórnarinnar snerust þá um heimili landsins, skiljanlega. Síðan fékk fólk leiðréttingu og ríkissjóður fékk stöðugleikaframlög á móti skuldbindingum sem hann tók á sig, sem ekki er möguleiki núna eftir því sem maður les úr aðstæðum. En þrátt fyrir aðgerðir í síðasta hruni féllu margir ofan í glufur sem voru í þeim aðgerðum sem farið var í og að sjálfsögðu viljum við reyna að forðast það núna. Fólk á leigumarkaði féll t.d. í slíkar glufur í því hruni og námsmenn. Ég minni á námsmenn erlendis í þeim aðstæðum og lokunum sem eru í gangi núna. Námsmenn fengu ekki leiðréttingu á námslánum sínum þrátt fyrir sama verðbólguskot og varð í lánum sem voru leiðrétt hjá húsnæðiseigendum.

Mig langar til að nota þessa fyrirspurn til að fjalla um þá hópa sem gleymdust síðast og þá sérstaklega á málefnasviði hæstv. ráðherra, námsmennina. Ég var námsmaður í síðasta hruni erlendis og það kostaði ekkert lítið, alls ekki. Allt í einu var ég með hærri laun með þessum litla námsstyrk sem ég var með í skólanum úti og þurfti að fara að borga miklu hærri skatta en gert var ráð fyrir. Sparnaðurinn sem maður var að reyna að halda í til þess að hafa þegar maður kæmi til baka þurrkaðist upp og ég hef ekki enn viljað telja það saman hver kostnaðurinn var við það. Ég veit um marga sem flosnuðu upp úr námi í kjölfar hrunsins. Ef við hugsum aðeins um námsmennina núna, sem eru framtíðin okkar ef við ætlum að fara í uppbyggingu til að ná okkur upp úr efnahagslægðinni, þætti mér vænt um að við léðum þeim eyra.