150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[14:49]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi það hvort einhver varaplön séu í gangi er það einfaldlega þannig, eins og ég hef sagt, að þetta er fyrsta skrefið sem við erum að stíga vegna þess að fyrirtækin kölluðu á það vegna fordæmalausra aðstæðna sem sköpuðust í ferðaþjónustunni miklu hraðar en menn gerðu ráð fyrir. Þegar skoðaður er tímaásinn sem fyrirtækin þurfa og þegar tekjurnar hverfa algerlega, þá vildum við draga úr hættunni á því að fyrirtæki þyrftu að slíta ráðningarsambandi og segja upp starfsfólki, en það þyrfti að gerast með ákveðnum fyrirvara þannig að menn hefðu það í hendi fyrir næstu mánaðamót.

Við höfum verið að undirbúa fleiri aðgerðir sem lúta að atvinnuleysi sérstaklega, m.a. er verið að vinna með úrræði sem voru hér í gangi eftir efnahagshrunið en þó er verið að vinna þau aðeins öðruvísi m.a. vegna þess, sem kom hér fram í fyrri umræðum, að það er mikill fjöldi erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá núna. Það var ekki með sama hætti í efnahagshruninu.

Það er alveg ljóst að við erum bara að taka fyrsta skrefið en ég vil þó meina að þetta skref hér, ef okkur tekst að ná þannig utan um það að fyrirtækin í landinu haldi ráðningarsambandi við sitt starfsfólk og atvinnuleysistryggingakerfið og þar með sjóðir okkar allra grípi inn í, er ekki lítið skref. Þetta er mjög stórt skref ef það tekst og það er verkefnið fram undan. Við viljum ekki að fyrirtækin fari inn í næstu mánaðamót með það að segja upp meiri hlutanum af sínu starfsfólki vegna þess að við trúum því að þetta verði tímabundin niðursveifla í ferðaþjónustunni og tengist þeim miklu ferðatakmörkunum sem nú eru um heiminn. Við ætlum okkur að brúa það í sameiningu.