150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[14:51]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynninguna á þessu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa, er varðar minnkað starfshlutfall. Það er alveg rétt sem kom fram í máli ráðherra að frumvarpið hefði auðvitað litið mögulega öðruvísi út hefðum við haft nægan tíma, vikur og mánuði, til að vinna það en það er ekki í boði. Þess vegna lendir það auðvitað svolítið á okkur í hv. velferðarnefnd að snikka það til eftir því sem umsagnaraðilar hnippa í okkur og láta okkur vita. Einnig er rétt að það komi fram í þessu púlti að hv. velferðarnefnd hefur frá því um helgina verið að kynna sér þetta efni og svo fengum við ráðherra í gær til að kynna bæði frumvörpin sem rædd verða hér í dag, þó að ekki væri búið að vísa þeim til nefndarinnar. Nefndin hóf gestakomur strax í dag og við fengum til okkar fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og fulltrúa listamanna, þ.e. formanns Sviðslistasambands Íslands, framkvæmdastjóra Félags íslenskra leikara, framkvæmdastjóra Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar og formann Bandalags íslenskra listamanna.

Þetta segi ég til þess að það sé fært til bókar að hv. velferðarnefnd hefur þegar haldið tvo fundi um þetta mál og munum við funda fram eftir kvöldi og allan morgundaginn til þess að það verði unnið jafn vel og mögulegt er á þessum skamma tíma. Allir nefndarmenn í hv. velferðarnefnd eru einhuga um að þetta verði gert eins vel og mögulegt er. Vil ég þakka öllum nefndarmönnum fyrir þeirra góða starf og þeirra velvilja af því að við erum nú í þessu saman.

Ég vil líka, fyrst ég er byrjuð í hróshringnum, þakka ráðherra fyrir upplýsingagjöfina. Það var auðvitað ekki samráð við nefndina á fyrstu stigum, þetta var bara upplýsingagjöf um hvernig frumvarpið liti út. En ég veit að það er mjög greitt samtal milli ráðuneytis og nefndarinnar.

Við höfum fengið til okkar nú þegar, þó að þetta mál fari ekki í hefðbundið umsagnarferli og sé ekki einu sinni komið til nefndarinnar, ábendingar víða að. Ferðaþjónustan hefur auðvitað töluverðar áhyggjur af þeim einstaklingum sem eru í mörgum hlutastörfum hér og þar. Það er verið að tala um ákveðið starfshlutfall og þar er ákveðinn rammi, starfshlutfall verður að vera að lágmarki 50%, en það eru fjölmargir sem taka að sér að vera leiðsögumenn hjá fleiri en einum aðila, eru í afgreiðslustörfum hjá einum aðila, eru á ýmsum stöðum og eru jafnvel í þjónustustörfum hjá þriðja aðila. Það er vissulega mjög flókið og við þurfum einhvern veginn að gera ráð fyrir að hægt sé að mæta eins mörgum og mögulegt er með ákveðnum sveigjanleika. Samt er það nú þannig að við vitum líka að eftir því sem okkur tekst að gera þetta einfaldara, þeim mun einfaldara verður það fyrir Vinnumálastofnun að vinna úr þeim umsóknum sem munu koma inn. Eftir því sem við skilum þessu frá okkur á þingi með meira flækjustigi, þeim mun meiri hætta er á að það verði hópar sem detta á milli og mjög miklar tafir verði í kerfinu.

Ljóst er að það ákvæði sem talað er um í 6. mgr. a-liðar 1. gr., er varðar sjávarútveg og fiskvinnslu, þarf eitthvað að skoða. Fram hefur komið að staðan í sjávarútvegi er allt önnur í dag, þriðjudag, en var bara í síðustu viku þegar frumvarpið var smíðað. Það er staðan víða um heim. Það er mjög mikil breyting á hverjum einasta degi. En því miður eru lögin þannig að þegar við höfum sett þau þá taka þau ekki breytingum fyrr en við hér tökum ákvörðun um slíkt. Þau eru orðin föst og ekki hreyfanleg nema með ákvörðun Alþingis. Í síðustu viku var talið að fiskvinnslufólk, sá hópur, þyrfti ekki á neinum stuðningi að halda, en ákvæði laga um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs gerir ráð fyrir að vinnsla falli alveg niður, a.m.k. heilu vinnslulínurnar og fólk sent heim, ekki að hægt sé að minnka hlutfallið. Þetta þarf að skoða af því að staðan hefur gjörbreyst á örfáum dögum, landslagið í fiskvinnslu og sjávarútvegi vegna samgöngu- og markaðsaðstæðna.

Okkur er alveg ljóst hver staðan er í ferðaþjónustunni, að mikið muni mæða á henni. Það er gríðarlega mikið högg í hótelbransanum og maður heyrir af því að heilu hótelkeðjurnar séu að upplifa það í fyrsta skipti að það berist ekki ein einasta bókun heilu sólarhringana. Það er auðvitað svakalegt. En við skulum öll þó muna það að þetta er tímabundið ástand. Það er auðvitað þreytandi að láta stanslaust segja sér annars vegar að eitthvað sé fordæmalaust og hins vegar að eitthvað sé tímabundið, en við skulum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að reyna að minnka höggið eins og mögulegt er. Þess vegna er jákvætt þegar það kemur frá ríkisstjórninni að allt verði gert til þess að setja meira inn en minna af því að það muni á endanum borga sig. Þá hljótum við líka að kalla eftir því að fyrirheit ráðherra ríkisstjórnarinnar um að setja meira inn í kerfið, meiri stuðning og koma með myndugleika inn í þetta allt saman, ferðaþjónustuna og aðrar greinar, verði á borði en ekki bara í orði. Ég átta mig á því að ekki er hægt að koma út með algerlega háþróaðar hugmyndir á fyrsta degi en það þurfa að fara koma aðeins skýrari hugmyndir frá ríkisstjórninni um hvað hún hyggst gera. En þetta er alla vega byrjunin.

Varðandi það sem við ræddum í óundirbúnum fyrirspurnum fyrr í dag held ég að það verði líka óhjákvæmilegt að horfa á ábendingar sem hafa borist frá Samtökum atvinnulífsins sem og Alþýðusambandi Íslands. Ákvæðið um að laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta samanlagt geti aldrei numið hærri fjárhæð en 80% af meðaltali heildarlauna launamanns mun bitna harðast á þeim tekjulægstu, því miður. Þeim hópi, tekjulægstu einstaklingarnir sem eru á lágmarkslaunum, 317.000 kr. á mánuði fyrir skatt, er ekki hægt að bjóða upp á að ekki sé hægt að fá hærri hámarksgreiðslur samanlagt en 254.000 kr. Þetta eru of lágar fjárhæðir, þessi hópur getur ekki tekið á sig slíkt högg. Við þurfum að tryggja að hann búi ekki við enn krappari kjör en nú er. Þessi hópur á erfitt með að eiga til hnífs og skeiðar í hverri einustu viku, hverjum einasta mánuði, sjá fyrir fjölskyldu sinni o.s.frv. Við erum nýbúin að sjá mjög áhrifaríkan Kveiksþátt þar sem einmitt voru birtar aðstæður fólks í fullri vinnu sem er að reyna að framfleyta sér og fjölskyldu sinni. Við verðum að vernda þennan hóp. Það að þeir sem eru með 400.000 kr. fyrir skatt fari niður í 320.000 — það er alveg ljóst að við getum ekki gert þetta svona.

Þá er talað um að samanlagt geti laun fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbætur ekki numið hærri fjárhæð en 650.000 kr. á mánuði. Það þarf líka að endurskoða það. Þá er vert að horfa til þess að hluti af þessum launum kemur til baka til ríkissjóðs í formi skattgreiðslna. Það mun á endanum frekar borga sig að reyna að fá fleiri inn í minnkað starfshlutfall í stað þess að launamaðurinn segi: Ég hef ekki efni á að fara í þetta minnkaða starfshlutfall. Ég ætla frekar að láta segja mér upp eða segja upp og vinna uppsagnarfrestinn af því að ég bara get ekki gert þetta svona. Við getum ekki farið niður í 650.000 kr. tekjur. Fyrir suma eru það auðvitað háar fjárhæðir. En af því að þetta gerist fyrirvaralaust þá verður líka að horfa á rekstur heimilis og gefa fólki sveigjanleika til að draga saman seglin.

Einn hópur sem við verðum líka að horfa á og við í hv. velferðarnefnd munum ræða við á morgun eru námsmenn. Námsmenn sem eru í meira en 30% námi, fara yfir tíu einingar, eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Það er ljóst að dregið hefur mjög úr ásókn fólks í námslán. Það eru æ fleiri sem kjósa að reyna frekar að vera í hlutastarfi með námi. Þeir einstaklingar sem nú missa vinnuna en framfleyta sér og fjölskyldu sinni meðfram námi með hlutastarfi eiga ekki rétt á neinum atvinnuleysisbótum. Það þarf að finna lausnir fyrir þann hóp og munum við í nefndinni gera allt sem við getum til að finna út hvernig við eigum að gera þetta. Mögulega þarf að útbúa nýtt frumvarp sem útvíkkar heimild Atvinnuleysistryggingasjóðs tímabundið fyrir námsmenn. Ég átta mig hreinlega ekki á því hvernig við munum gera þetta, en við munum að sjálfsögðu fá ráðuneytið aftur fyrir nefndina til að horfa á þennan hóp. Maður sér það núna víða um samfélagið með námsmenn sem þurfa að borga sína leigu og framfleyta fjölskyldu sinni þrátt fyrir að vera í námi og ekki með námslán, að ekki er hægt að fara að sækja um námslán núna í lok annar. Það þarf einhvern veginn að koma til móts við þennan hóp því að ekki viljum við að fólk hrökklist úr námi vegna stöðunnar. Ég held að það sé ekki það sem við viljum, að fólk fari alfarið inn á atvinnuleysisbætur eingöngu.

Það hefur heilmikið verið rætt um sjálfstæða atvinnurekendur. Varðandi listamennina þá fengum við þá fyrir nefndina í morgun. Þar er töluverður sokkinn kostnaður líka, sérstaklega hjá listamönnum sem eru á faraldsfæti og hafa leigt græjur, hafa kostað formúu í ferðalög og hafa svo þurft að koma heim mun fyrr en ella. Það eru fjölmargir viðburðir, tónleikar, jafnvel helgihald í dymbilvikunni. Þetta eru uppskerumánuðir listamanna sem standa núna yfir, mars og apríl, með ýmsar uppákomur í kringum dymbilviku og páska og þegar árshátíðir og aðalfundir eru haldnir. Þessir tímar eru kannski fyrir utan desembermánuð hvað annasamastir hjá listamönnum og þeim sem starfa í kringum það. Við erum að tala um allt tæknifólk og þess háttar. Það er alveg ljóst að við þurfum að skoða vel hvernig við komum til móts við þessa aðila vegna þess að í þeim hópi eru oftar en ekki einstaklingar sem gera upp sitt reiknaða endurgjald einu sinni á ári en ekki í hverjum mánuði.

Þetta eru þau verkefni sem bíða nefndarinnar á næstu tveimur sólarhringum að vinna. En við brettum upp ermar og höldum áfram og munum gera allt sem við í hv. velferðarnefnd getum til að þetta megi fara sem best.