150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[15:06]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við erum hér að ræða frumvarp — langþráð frumvarp eru kannski ekki orðin en mikið hefur verið beðið eftir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa, í ljósi þeirrar stöðu sem við stöndum nú frammi fyrir. Það er klárt að því miður á fjöldi fólks mikið undir og bíður eftir því að þetta mál klárist. Það er líka mjög mikilvægt að hér verði vandað til verka. Ítrekað hefur komið fram í máli hæstv. félagsmálaráðherra að ástæðan fyrir því að ýmislegt virðist óunnið í málinu er að mikið lá á. Það þurfti að koma þessu máli hratt til nefndar. Ég get tekið undir það með hæstv. ráðherra að líklegast er betra að gera þetta svona og veita nefndinni svigrúm til að vinna málin áfram eins og best verður á kosið. Ég ætla að nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra fyrir það hvernig hann hefur nálgast þessi mál og upplýsingagjöf til nefndarinnar. Við höfum gagnrýnt skort á upplýsingagjöf og samráði í öðrum málum og því er rétt að halda því til haga sem vel er gert. Eins og hv. formaður fór yfir hefur nefndin þegar hafið störf við málið þrátt fyrir að hér sé verið að mæla því.

Frumvarpið felur í sinni einföldustu mynd í sér að fólk geti lækkað í 50% starfshlutfall. Vinnuveitandi greiðir sem sagt 50% laun en fólk verður bara af 20% tekna af því að Atvinnuleysistryggingasjóður brúar bilið þar á milli, upp að 650.000 kr. á mánuði. Það er augljóst miðað við frumvarpið eins og það liggur fyrir núna að stór hluti þeirra sem verða skikkaðir í hlutastörf vegna samdráttar mun ekki hljóta bætur og að launafólk sem t.d. er lækkað úr 100% niður í 80% fellur ekki þar undir. Á það hefur verið bent af þeim aðilum sem við höfum þegar hitt og öðrum sem eru að senda inn ábendingar að 20% skerðingin sé of brött, þ.e. 80% starf, og svo að 650.000 kr. hámarkið sé of lágt, sérstaklega þegar litið er til þess hvert meðaltal heildarlauna í samfélaginu er. Það er um 750.000 kr. Þetta eru hlutir sem ég kem kannski aðeins að á eftir.

Áður en það dettur úr mér langar mig að árétta sérstaklega að það er hópur fólks, námsmennirnir okkar, þeir sem eru í hlutastarfi, þeir sem framfleyta fjölskyldum, tryggja hreinlega eigin framgang í námi og eiga ekki rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þess að þeir eru í námi, sem er gríðarlega mikilvægt að við tökum utan um og pössum. Staða þess fólks er skert miðað við núverandi stöðu og þetta frumvarp er ekki til þess að bæta stöðu þess. Þetta er fjöldinn allur af ekki bara tekjulægsta fólkinu í dag heldur er þetta það fólk sem við treystum á í framtíðinni. Þetta er unga fólkið okkar sem er að afla sér menntunar. Við ættum að hafa það í forgrunni. Ég kalla eftir því að hæstv. félagsmálaráðherra hafi það í huga.

Ég ætla eiginlega að bæta því við að samkvæmt mínum upplýsingum hefur ekki verið haft samband við stúdentahreyfingarnar vegna þessa máls. Ég treysti því að við bætum úr því í velferðarnefnd. Það er mikilvægt að hafa þær með.

Svo er annað sem við þurfum líka að hafa í huga. Miðað við frumvarpið óbreytt er gert ráð fyrir að það sé afturvirkt til 15. mars en við vitum að a.m.k. tveimur vikum fyrr fór virkilega að bera á því að fólk færi að detta inn í skert starfshlutfall. Við erum búin að horfa upp á stöðuna í það langan tíma. Ekki síst var farið að bera á samdrætti í ferðaþjónustunni miklu fyrr þannig að það þarf líka að skoða hvort við höfum einhver tök á því að teygja okkur lengra til baka til að mæta þessu fólki.

20% skerðingin og svo upphæðin sjálf eru risamál, annars vegar fyrir ríkissjóð vegna þess að þar verður margt sem þarf að huga að og hins vegar og ekki síst fyrir fólkið sem þetta mál snertir. Ég held að það sé mikilvægt að hafa í huga að þessu frumvarpi er ætlað að halda utan um fólk og fyrirtæki sem á þennan hátt eiga möguleika á að halda ráðningarsambandi sínu við starfsmenn og eiga þar með möguleika á að koma sér fyrr á gott skrið aftur.

Þetta er ekki frumvarp til að vernda ríkissjóð þó að ég átti mig fyllilega á því að menn þurfa að huga vel að málum þar. Töluvert hefur verið rætt um ómöguleikann fyrir fólk á lægstu launum að þrauka ef þau laun eru skert um 20% og ég veit að við munum fara vel yfir það. Svo er annar hópur fólks, millitekjufólkið. Hér er gert ráð fyrir 650.000 kr. þaki og þar sem við erum að tala um tekjur ríkissjóðs má nefna að þar kikka skatttekjur inn á móti. Það er ekkert flókið að reikna sig upp í að það sé bókstaflega mjög skynsamleg meðferð ríkisfjármála að hafa ekki þetta þak vegna þess að skatttekjur koma inn á móti.

Síðan langar mig að skoða stöðu þess tiltekna hóps sem er gjarnan fólkið með breiðu bökin sem hefur ef við lítum tíu ár aftur í tímann tekið á sig í gegnum tíðina ansi þungar byrðar. Þetta er fólkið sem sér um einkaneysluna okkar, sér um að kaupa þjónustuna, sér um tekjudreifinguna til hópanna sem við erum líka að tala um að hafa áhyggjur af, verktakanna og listafólksins. Þetta er hópurinn sem við erum að líta til að muni vonandi ekki setja bremsurnar á í allri neyslu því að þá verður vandinn mun umfangsmeiri hjá okkur og verður fljótur að hlaða utan á sig. Ég nefni það sérstaklega hér að ríkisstjórnin boðaði einhverjar tillögur til að örva einkaneyslu í samfélaginu. Þetta væri mjög ágæt ráðstöfun í þá átt. Ég veit að það hefur komið fram að frumvarpið fór þannig inn á fund ríkisstjórnar á þriðjudaginn. Þar voru þessi belti og axlabönd sett á þannig að það var svo sem upprunalega hugmyndin. Það rennir líka stoðum undir það hversu skynsamlegt það er að kippa þessu burt að hér er um tímabundna ráðstöfun að ræða. Þetta er brú til skemmri tíma. Við erum ekki að tala um varanlega ráðstöfun þannig að við þá sem óttast að hér myndist einhvers konar freistnivandi og að ríkissjóður greiði háa fjármuni sem ekki er þörf á að þegar upp verður staðið vil ég segja að ég held að ekki sé ástæða til að óttast það nema við förum inn í þeim mun lengra tímabil samdráttar. Við erum enn þá að vinna út frá því að svo verði ekki.

Eins og ég segi held ég að rökin fyrir því að afnema þessar skerðingar hér séu einmitt að við ýtum undir það að stytta þann tíma.

Þetta eru stóru málin. Hér hefur verið talað töluvert mikið um sjálfstætt starfandi. Það er verið að tala um fólk í hluta- og ígripastörfum í ferðaþjónustunni og fólk sem er ekki í skilgreindum starfshlutföllum og dettur þar með út úr þessu. Við þurfum einhvern veginn að láta lögin ná utan um þann hóp fólks, fanga stærri hluta með því að fara niður í 25% starfshlutfall. Það gæti líka skipt sköpum fyrir stóra hópa.

Þegar við erum búin að þylja upp alla þessa hluti sem við þurfum að gæta að má nefna hópinn sem lifir á sérstökum uppákomum, er ekki með skilgreint starfshlutfall og á engan áreiðanleika í tekjum yfir höfuð nema kannski yfir lengra tímabil. Þá verðum við að svara því og líta til slíkra langra tímabila þegar við reiknum út en þegar við erum búin að taka allt þetta saman, alla þá þætti sem raunverulega þarf að taka tillit til, ef við ætlum að láta þetta ganga upp, blasir við sú staðreynd að einfaldleikinn er töluvert mikilvægur. Við þurfum líka að hugsa til þeirra sem eiga eftir að vinna samkvæmt þessum lögum sem hér er verið að hugsa um að setja og hversu hratt við getum náð þessu í gegn. Við viljum ekki kaffæra Vinnumálastofnun eða aðrar stofnanir sem eiga að sjá um þetta. Töluvert mikið er undir og ég held að velferðarnefnd muni kannski ekki endilega sjá til sólar á næstu dögum heldur loka sig af og vinna þetta vonandi hratt og vel. Ef til vill verður niðurstaðan sú að það þarf að brjóta þetta eitthvað upp en hvað sem öðru líður verður mjög gott að öll nefndin fái vonandi tækifæri til að vinna þetta í nánu samráði og með þann tíma sem við fáum.

Ég veit að forseti Alþingis hefur veitt vilyrði fyrir því að velferðarnefnd fái forgang á fundartíma fastanefnda svo að við náum að halda vel utan um þetta. Gestakomur eru boðaðar þannig að í lokin óska ég okkur í velferðarnefnd allrar velgengni með þetta mikilvæga mál.