150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[15:16]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að við séum farin að ræða þetta mál og að það sé komið á dagskrá. Ég held að þetta sé eitt af grundvallarmálunum sem þarf að klárast núna. Í fyrri hluta þessa óveðurs sem gengur yfir okkur núna sem við ætlum að komast í gegnum held ég að við þurfum að vera með mjög skýr skilaboð, fyrst um að við ætlum að hjálpa fólki, heimilum og fyrirtækjum, almenningi í þessu landi, til að komast í gegnum þessa tímabundnu erfiðleika. Við verðum um leið að átta okkur á að við leysum ekki allt akkúrat í þessu máli þó að við getum leyst mjög margt. Þetta er stórt og öflugt mál sem getur skipt sköpum upp á það hversu margir haldi vinnunni sinni, lífsviðurværi heimilanna og tekjuflæði þeirra sem er grundvöllur að þeirri velferð sem við höfum hér og hversu mörg fyrirtæki verða tilbúin að standa storminn af sér, grípa tækifærin þegar stormurinn gengur yfir og hjálpa okkur í uppbyggingunni sem við þurfum að fara í. Þess vegna fagna ég þeirri góðu samvinnu sem við höfum átt um þetta mál, fyrst milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Ríkisstjórnin vann þetta í upphafi í góðri samvinnu við aðila vinnumarkaðarins eins og félögin hafa lýst fyrir hv. velferðarnefnd. Svo er áfram góð samvinna í nefndinni og ég þakka bæði hæstv. ráðherra og nefndinni fyrir að samvinnan og samtalið fer vel af stað og allir saman í bátunum um að láta þetta ganga vel. Þetta skiptir máli og það skiptir líka máli að þó að málið hafi ekki verið fullbúið og hafi ekki alveg leyst öll vandamálin í upphafi hafi það komið svona fljótt fram til að við hefðum þá meiri tíma til að máta það við þá stöðu sem er uppi. Svo hefur staðan að sjálfsögðu breyst hratt frá því að málið kom fram þannig að ég tek undir flest það sem hefur komið fram í umræðunni í dag um atriði sem við þurfum að huga að. Ég minni aftur á að það eru atriði sem við getum ekki leyst núna en við verðum að leysa á síðari stigum í þeirri vinnu sem er fyrir framan okkur.

Þar sem við erum að fjalla hér um Atvinnuleysistryggingasjóð og Ábyrgðasjóð launa má nefna að það er alveg ljóst að mikið mun reyna á þessa sjóði. Það verður mikið álag á þá. Þetta er bara spurning um hvernig okkur tekst til við að lágmarka þau áhrif. Ef vel tekst til við að lágmarka þau áhrif er það gott fyrir heimilin í landinu sem og fyrirtækin enda eru þeir hagsmunir algjörlega samofnir. Við þurfum að skoða nokkur atriði sem þarf að bregðast við til að málið sé skýrt og sendi skýr skilaboð til að við getum hleypt súrefni inn í atvinnulífið strax, eins og hámark launanna og samspil þeirra við meðallaun í landinu sem og 80% hlutfallið. Þegar við ræðum þessi tvö atriði, að þetta séu bara 80% af laununum og hvert þakið er, verðum við að átta okkur á því að aðgerðin miðast við að launamaðurinn hafi enn rétt á að velja hvort hann þiggur skert starfshlutfall og hluta úr Atvinnuleysistryggingasjóði eða að öðrum kosti bíði hans uppsögn með mislöngum uppsagnarfresti. Þar af leiðandi skiptir máli að þessi aðgerð sé þannig að sem flestir launamenn sjái hag sínum best borgið við að fara sömu leið og fyrirtækin. Þess vegna þurfum við að skoða þetta út frá því að þessi aðgerð nái markmiði sínu.

Varðandi starfshlutfallið eru kannski 50–80% eðlileg en það er tvennt sem við þurfum að skoða í því. Munu 50% duga í öllum tilvikum eftir atvinnugreinum og aðstæðum eða þarf þetta að vera lægra, eins og hefur komið fram fyrir nefndinni? Sumir telja að það þurfi. Það er annað atriðið. Hitt atriðið er hvort það megi þá vera 50–80% af 50% starfshlutfalli fyrir þá sem eru nú þegar í 50% starfshlutfalli. Menn spyrja hvort þetta nái til þeirra eða ekki.

Þetta er tvær hliðar á sama peningi þessa atriðis.

Þetta á við um fleiri hópa eins og fiskvinnslufólk. Við höfum líka rætt hér námsmenn, sviðslistafólk og fleiri. Við verðum að átta okkur á að það eru margir svona hópar. Ég held að það sem varðar fiskvinnsluna tengist algjörlega þessu máli, við þurfum að skoða það mjög vel og bæta því við, en svo eins og með námsmenn og bændur — það er hægt að telja upp marga hópa í samfélaginu — er ekki alveg víst að við náum að búa svo um hnútana akkúrat í þessu máli þó að við þurfum að huga að þeim í næstu málum sem koma á eftir.

Það er ánægjulegt að sjálfstætt starfandi séu inni í þessu. Það þarf að kynna vel að þeir sjá fram á lækkað endurgjald hjá sér sem þeir telja fram og þá geta þeir fengið bætt þarna úr. Það kom fram fyrir nefndinni að öll umsýsla í kringum þetta er orðin stafræn eða rafræn og orðin greiðari þannig að þetta er orðið minna mál. Það skiptir líka miklu máli að þetta verði ekki eitthvert flækjustig. Þetta þarf að vera skýrt og það er hægt að ganga hreint til verks. Það hvernig okkur tekst til í þessu máli mun skipta miklu upp á hvað við heyrum miklar fréttir um uppsagnir á næstu dögum, sólarhringum og misserum.

Svo verðum við líka að átta okkur á því að aðstæðurnar eru misjafnar eftir því hvort við erum að tala um stór fyrirtæki sem eru með fjölda starfsmanna eða lítil og meðalstór fyrirtæki. Það er líka munur á því hvort við erum með árstíðabundin fyrirtæki sem eru með miklar árstíðabundnar sveiflur eða hvort þetta fer eftir einhverju öðru. Ekki er allt starfsfólk búið að vinna í þrjá mánuði, það er kannski nýbyrjað að starfa hjá litlum og meðalstórum ferðaþjónustufyrirtækjum og er bara að koma til starfa núna rétt áður en vertíðin byrjar. Það fólk er ekki með þriggja mánaða starfsreynslu.

Það er fullt af svona atriðum. Mér skilst að það sé sameiginlegur skilningur hjá öllum að málið sé mikilvægt, að það þurfi að ganga og að við séum búin að fá miklar upplýsingar, athugasemdir og tillögur sem við munum í sameiningu fara yfir og vanda okkur við að vinna sem best úr. Við vitum samt að við höfum ekki mikinn tíma.

Ég þakka fyrir þá góðu vinnu sem hefur farið fram nú þegar og vænti þess að svo verði áfram.