150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[15:24]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér mál sem ég tel mjög mikilvægt og ánægjulegt að sé komið fram þótt mér finnist að við mættum ganga lengra, eins og ég kom inn á í andsvari mínu við hæstv. ráðherra áðan. Það hefur svo sem komið fram í þessari umræðu að stuttur tími fór í gerð þessa frumvarps. Þess er vænst að það muni taka breytingum við meðferð hv. velferðarnefndar sem er vel. Það er mjög ánægjulegt að mjög góður samhljómur virðist vera um að þetta frumvarp verði unnið þannig að það nái sem best utan um alla þá hópa sem þurfa á stuðningi að halda á þessum erfiðu tímum.

Ég vil af þeim sökum árétta nokkra hluti sem og stöðu nokkurra hópa við 1. umr. þessa máls vegna þess að ég hef áhyggjur af því að við náum ekki nógu vel utan um þá, a.m.k. miðað við núverandi frumvarp. Eins og ég segi hef ég þó alveg von um að á athugasemdir mínar verði hlustað og að hv. velferðarnefnd muni sinna því vel að ná utan um þessa hópa.

Í fyrsta lagi finnst mér mikilvægt að við einbeitum okkur að gleðigjöfum þjóðarinnar, skemmtikröftum; söngvurum, listamönnum, öllum þeim sem hafa það að atvinnu sinni að skemmta okkur og gleðja. Akkúrat núna er ekki einfaldur tími fyrir þau til að draga fram lífið þegar samkomubann er í gildi. Þetta er einn hópur sem ég tel ekki tryggt að tekjutengingin nái til, a.m.k. samkvæmt orðalagi núverandi frumvarps, þannig að þau geti kannski átt von á lágmarksatvinnuleysisbótum en að þau séu ekki tekjutengd. Fyrir fólk með jafnvel húsnæðislán eða leiguskuldbindingar er það frekar erfiður biti að kyngja að lækka jafnvel um helming eða meira í launum. Það virðist a.m.k. ekki tryggt af frumvarpstextanum núna og ég vona að til standi að bæta úr stöðu þeirra einstaklinga sem eru í sjálfstæðum rekstri og verða af tekjum núna vegna ástandsins. Staðan virðist vera sú að þeir fái bara grunnatvinnuleysisbætur en að þær séu ekki tekjutengdar og að þessi hópur eigi þar af leiðandi ekki möguleika á að fá viðbótarframlag eins og kannski er gert ráð fyrir gagnvart öðrum hópum. Þetta þarf að vera skýrt, þetta þarf að vera afgerandi og ég verð að undirstrika mikilvægi þess að þegar við komum okkur saman um lendingu á þessu frumvarpi verður það að vera skýrt og afgerandi. Það verða að vera ítarlegar leiðbeiningar um hvað þetta þýðir fyrir launafólk, atvinnurekendur sem og Vinnumálastofnun þannig að allir séu á nákvæmlega sömu blaðsíðu um hvaða réttindi hver og einn hefur.

Öll óvissa varðandi innihald þessa frumvarps sem við erum að vinna hér þegar það að endingu verður gert að lögum er ekki af hinu góða, sérstaklega gagnvart launafólki en líka gagnvart atvinnurekendum sem núna eru margir eflaust mjög efins um hvað þeir eigi að gera. Eiga þeir að bíða eftir viðbrögðum frá stjórnvöldum? Hvernig verður þetta gert? Upplýsingaflæðið, a.m.k. hvað varðar þennan pakka, er ekki nógu skýrt til að það sé búið að gefa út mjög skýr fyrirmæli um að það eigi að bíða og sjá hvernig fyrirkomulagi verður háttað af hálfu þingsins áður en byrjað er að segja upp fólki. Fréttir af því að ríkisstjórn hafi samþykkt þetta eða hitt gefa til kynna að þetta sé orðið að lögum. Það er bagalegt að nota þannig málfar, virðulegur forseti, að það að ríkisstjórnin hafi samþykkt eitthvað ákveðið þýði að það sé orðið að lögum og þýði að þetta séu reglurnar sem fylgja beri. Það eru bara ekki allir jafn upplýstir um að ríkisstjórnin samþykki ekki nein lög heldur einungis tillögur til Alþingis um slíkt. Þegar þetta verður að lögum, virðulegi forseti, vil ég árétta mikilvægi þess að mjög skýrar upplýsingar berist. Ég legg til að þær berist á íslensku, ensku og a.m.k. pólsku ef ekki fleiri tungumálum og að sérstök áhersla sé lögð á að koma þessum upplýsingum til fyrirtækja í landinu þannig að það sé ekki bara þeirra að afla sér upplýsinga heldur fái þau upplýsingar að frumkvæði yfirvalda um hvaða áhrif þetta frumvarp muni hafa á rekstur viðkomandi fyrirtækja og réttindi viðkomandi launafólks.

Ég minntist á það í andsvari við hæstv. ráðherra áðan að ég hefði áhyggjur af fólki sem væri í nokkrum hlutastörfum og notaði þau til að vinna fyrir sér, væri jafnvel með 40% stöðu á einum stað og 50% stöðu á öðrum stað, og ef það vildi minnka við sig eða kæmist að samkomulagi við vinnuveitanda um að á öðrum staðnum myndi það minnka við sig um 10% og á hinum staðnum um 10% væri það dottið út úr þeirri jöfnu sem er sett fram í frumvarpinu. Ég held að við þurfum að vera miklu sveigjanlegri. Það sem ég upplifi við lestur þessa frumvarps er að við séum með belti og axlabönd gagnvart launafólki sem hefur hvorugt akkúrat núna. Ég held að það væri frekar gagnvart þeim sem við ættum að setja upp belti og axlabönd en að hafa það gagnvart ríkissjóði akkúrat núna, sér í lagi vegna þess að um tímabundnar aðgerðir er að ræða. Ég er reyndar ekki sammála því að þessar aðgerðir eigi bara að vera til þriggja mánaða. Það er sérkapítuli út af fyrir sig. Ég tel að þetta ætti að ná utan um lengra tímabil, aðallega til þess að við þurfum ekki að koma hingað aftur og samþykkja nákvæmlega sama hlutinn að þremur mánuðum liðnum.

Ég á erfitt með að sjá hvers vegna nákvæmlega þessi hlutföll eru valin umfram önnur. Það að launamaður verði að halda 50% starfshlutfalli gefur til kynna að hann geti ekki verið með 30% starf hérna megin og 40% starf hinum megin, lækkað samtals um 20% með báðum vinnuveitendum og þannig komist inn í þessar aðgerðir stjórnvalda. Ég skil ekki frumvarpstextann þannig og ef ætlunin er að hægt sé að blanda saman nokkrum fyrirtækjum sem viðkomandi einstaklingur vinnur hjá þarf það að koma miklu skýrar fram í frumvarpinu. Það verður þá að standa mjög skýrt í nefndaráliti líka, það er alveg á hreinu, og sömuleiðis með tekjutengingu hjá sjálfstætt starfandi.

Ég set líka spurningarmerki við 20% regluna sem er sett, að það verði að minnka um a.m.k. 20%. Ég skil ekki alveg tilganginn með henni. Af hverju ætti ekki að vera nógu gott fyrir ríkið ef minnkun á starfshlutfalli um 10% dugar, sérstaklega þegar við erum að tala um einstaklinga sem eru hjá tveimur vinnuveitendum, jafnvel þremur? Þessi 20% regla finnst mér vera mjög hamlandi og mér finnst hún útiloka mjög stóran hóp sem annars gæti notið góðs af þessari leið.

Það segi ég líka um 50% hlutfallið vegna þess að við erum með margt fólk, eins og ég segi, í hlutastörfum og mér finnst bara alls ekki nógu skýrt að frumvarpið nái utan um þau sem eru með nokkur störf. Þarna er ég sérstaklega að hugsa um unga fólkið okkar. Við sjáum fram á mikinn samdrátt í ferðaþjónustu. Það er vissulega rétt að það er mikilvægt að sinna þeim hópi en mér finnst að við mættum ekki gleyma heldur þeim sem vinna í veitingabransanum og á skemmtistöðum. Þetta er unga fólkið okkar og þetta eru líka erlendir ríkisborgarar sem vinna hjá okkur mjög mikilvægt starf og þau sjá fram á mjög mikinn samdrátt. Það er til þeirra sem mér finnst líka mjög mikilvægt að við sendum skilaboð. Hvaða skilaboð? Að ríkið muni koma til móts við ykkur svo þið þurfið ekki að segja upp öllum ykkar hlutastarfsmönnum. Á meðan það er ekki skýrt að viðkomandi þurfi að vera a.m.k. í 70% vinnu til að geta fallið undir þetta fá skemmtistaðir og veitingastaðir landsins þau skilaboð að þeir verði að segja upp öllum hlutastarfsmönnum og að ekkert verði gert til að koma til móts við það fólk. Þess vegna finnst mér líka svo mikilvægt að núna komi skilaboð um að verið sé að vinna í þessu. Þetta liggur ekki almennilega fyrir og mér finnst það ekki hafa komið nógu skýrt fram. Það er ekki búið að gera þetta lögum, þessi skilyrði eru ekki endanleg og það er tilefni til að bíða a.m.k. fram á fimmtudag og sjá hvað kemur út úr þinglegri vinnslu þessa máls en ekki rjúka af stað núna og segja upp öllum hlutastarfsmönnum vegna þess að það getur vel verið að þetta nái líka utan um viðkomandi hlutastarfsmenn, a.m.k. ef hv. velferðarnefnd sinnir því starfi sem ég tel að hún muni sinna, að ná vel utan um þá hópa sem eru viðkvæmir fyrir, eru kannski í nokkrum hlutastörfum eða hafa eina 100% atvinnu og svo jafnvel 30% vinnu sem er mjög mikilvæg til að ná endum saman, sérstaklega t.d. fyrir einstæða foreldra.

Í þessu samhengi fannst mér mikilvægt að árétta hópana. Við höfum talað um námsmenn og auðvitað er mjög mikilvægt að sinna þeim og passa að þó að þeir fái mögulega ekki tækifæri til að þreyta lokapróf lendi þeir ekki í bjúrókratísku skrifræðishelvíti hjá LÍN. Það heyrir kannski ekki alveg undir þennan ráðherra en ég veit til þess að missi námsmaður heila önn út vegna ástandsins — þegar ég var í námi erlendis þýddi það að ég gat kannski fengið læknisvottorð eða einhvers konar aðstoð frá LÍN eða fyrirgefningu upp á 20 einingar en ekki meira en það. Ég vil bara halda því til haga að langflestir námsmenn sem eru í námi erlendis þurfa að reiða sig á yfirdráttarheimild frá bankanum sínum og að því loknu fá þeir námslánin. Ef námslánin eru svo bara upp á 20 einingar en yfirdrátturinn 30 einingar safnast stærri skuldahali en flestir nemendur eiga kost á að standa undir þegar fram líða stundir. Þetta er kannski aðeins annars eðlis en þetta frumvarp.

Heilt yfir er mjög jákvætt að ríkisstjórnin sé að bregðast við með þessum hætti, taki utan um launafólk, styðji við atvinnustig í landinu og passi upp á að fólk geti haldið áfram að vinna þótt það minnki við sig starfshlutfall. Ég velti samt fyrir mér hvers vegna ekki sé gengið lengra. Í Danmörku sjáum við t.d. að ríkisstjórnin lýsir yfir vilja til að borga allt að 80%, 75–80%, af launum launafólks. Þar af leiðandi er í boði langtum betri stuðningur en verið er að boða hér. Af þeim sökum tel ég mikilvægt að við skoðum hvað nágrannaþjóðir okkar hafa verið að gera og könnum hvort ekki sé tilefni til þess að ganga lengra í þá átt.

Hvað 80% hlutfallið varðar, að viðkomandi einstaklingar geti aldrei fengið meira en 80% af heildarlaunum sínum út úr þessari leið, finnst mér það virka mjög letjandi fyrir launafólk og fyrir atvinnurekendur að fara þá leið, að hafa þessa takmörkun, sér í lagi þegar við gætum kallað það beltin en að axlaböndin séu svo 650.000 kr. hámarkið. Hvers vegna er ekki 650.000 kr. hámarkið látið duga ef það þarf endilega að vera þarna þótt vissulega hafi komið ágætisábending frá hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson um að mögulega væri það hámark líka óþarfi? Ég læt það svo sem liggja á milli hluta.

Ég velti fyrir mér að þegar kemur svona sterkur rammi utan um það hvaða einstaklingar geti nýtt sér það sitjum við eftir með mjög fáa sem geta nýtt sér úrræðið. Fyrst og fremst kalla ég þó eftir því að ríkisstjórnin tali skýrt, að við þingmenn tölum skýrt þegar þetta mál hefur verið afgreitt og að séð verði til þess að allar þessar upplýsingar berist vel og rækilega, sérstaklega vegna þess að ég tel að margir í veitingabransanum og margir í ferðabransanum séu mjög uggandi, hafi byrjað uppsagnir, viti ekki hvernig þetta frumvarp muni fara og hafi ekki fengið skýr skilaboð frá stjórnvöldum um að á fimmtudaginn skuli þetta mál afgreiðast og að það gæti tekið töluverðum breytingum í millitíðinni. Af þeim sökum tel ég mikilvægt að stjórnvöld fari í upplýsingagjöf núna um þennan þátt málsins og svo í mjög ríka upplýsingagjöf um endanlega niðurstöðu af stuðningi við þetta frumvarp þegar að því kemur á fimmtudaginn.

Að öðru leyti þakka ég fyrir frumvarpið og þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég tel að við getum unnið úr þessu mikilvæga viðfangsefni saman.