150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[15:47]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Við ræðum breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa varðandi lækkað starfshlutfall. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni með að þetta frumvarp sé komið fram skömmu eftir að ríkisstjórnin sló í klárinn hvað þetta varðar. Það er auðvitað eitt og annað í frumvarpinu sem ber þess merki að hratt hefur verið unnið og á grunni sem var skilinn eftir frá 2008. Ég vil bara taka fram í byrjun að Miðflokkurinn styður að sjálfsögðu við góð og jákvæð mál eins og þetta en á sama tíma viljum við fá að benda á nokkur atriði sem við teljum skynsamlegt að verði skoðuð í nefndinni. Þar er fyrst til að taka að við viljum gjarnan að sérstaklega verði skoðað sem snýr að 650.000 kr. hámarkinu sem hefur nokkuð verið rætt hér fyrr í dag. Töluverð gagnrýni kemur fram á það í minnisblaði ASÍ sem liggur hér fyrir sem eins konar forskjal, ef svo má segja, þ.e. ekki umsögn til nefndar en ég geri ráð fyrir að þetta minnisblað hafi farið milli ASÍ og ráðuneytisins við vinnslu málsins.

Það eru stórir hópar mikilvægra starfa víða í samfélaginu. Við getum horft á stóriðjurnar og tengd þjónustufyrirtæki sem eru örugglega heilt yfir í launaskala sem er svolítið yfir þessu. Við getum horft á mikilvægar stéttir eins og flugið sem er að verða fyrir miklum og mörgum höggum úr öllum áttum þessa dagana sem væru þarna ofan við þessi mörk. Ég held að alltumlykjandi í umræðunni sé núna að það sé áhættuminna að yfirskjóta en undirskjóta í aðgerðum og þá sé skynsamlegt að skoða hvort ekki sé ástæða til að hafa þetta viðmið hærra, sérstaklega í ljósi þess að frumvarpið er með sólarlagsákvæði. Það tekur til tímarammans frá 15. mars 2020 til og með 30. júní 2020, sem er rétt rúmlega 100 dagar. Á skaðanum verður bitamunur en ekki fjár, ef svo má segja, fyrir ríkissjóð hvað þetta tiltekna atriði varðar þótt allt safnist auðvitað saman.

Annað atriði sem mig langaði til að nefna í dag við 1. umr. er, eins og segir í frumvarpinu, að samanlagt geti fjárhæðin aldrei orðið hærri en 80% af meðaltali heildarlauna launamanns. Þetta ákvæði er þeirrar gerðar að það verður væntanlega sérstaklega snúið við að eiga og kemur hart niður á lægstu tekjuhópunum þar sem lítið svigrúm er til að mæta tekjumissi sem þessum og vil ég þess vegna óska eftir því að þetta atriði verði skoðað í vinnu nefndarinnar.

Síðan er atriði sem mér sýnist í fljótu bragði ekki vera tekið á í frumvarpinu eins og það kemur fyrir, staða fólks sem tekur á sig lækkað starfshlutfall vegna þess ástands sem nú er og þeirra aðgerða sem hér eru boðaðar en lendir síðan í varanlegu atvinnuleysi í framhaldinu. Það þarf að skoða og tryggja að réttindastaða þess fólks taki mið af þeirri stöðu sem starfsmaðurinn var í áður en til lækkaðs starfshlutfalls kemur. Það er tekið vel á því í frumvarpinu með hvaða hætti þetta er leyst komi til þrots viðkomandi atvinnurekanda en ég held að það sé mikilvægt að velferðarnefnd skoði með hvaða hætti tekið verður á þessu og það tryggt að þarna myndist ekki sérstakur hvati til að starfsmenn nýti sér ekki þá lausn sem hér er boðuð, sérstaklega í ljósi þess að það eru augljóslega efasemdir, svo ég leyfi mér að vitna í áðurnefnt minnisblað Alþýðusambands Íslands, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Að óbreyttu mun Alþýðusambandið ekki geta mælt með því við félagsmenn aðildarfélaga sinna að þeir taki á sig skerðingu á starfshlutfalli með þeirri tekjuskerðingu sem núverandi frumvarp felur í sér.“

Ég gef mér að fulltrúar ASÍ horfi til þess að lagfæringar verði gerðar í þá veru sem tillögur hafa komið fram um nú þegar og vonist til þess að Alþýðusambandið geti mælt með því við aðildarfélög sín að þessi lausn verði nýtt. Eins og þetta liggur fyrir núna eru atriði sem þarf sérstaklega að skoða og ég vil benda á það atriði að tryggt verði að launþegar og atvinnurekendur beri á sama tíma ekki skaða af því að nýta sér þessa lausn með lækkuðu starfshlutfalli og það orsaki skerðingu á réttindum gagnvart atvinnuleysisbótum ef kemur til varanlegs atvinnuleysis þó að fyrirtækið fari ekki í þrot.

Fjórða atriðið mitt er að horft er til þess að starfshlutfall verði lækkað um 20–50% til að þessi lausn verði virk. Þegar ég hef í huga þær fréttir sem berast úr ranni ferðaþjónustunnar held ég að skynsamlegt sé að skoða það í velferðarnefnd á milli umræðna að hækka 50% hlutfallið upp í 75%. Ástandið er einfaldlega með þeim hætti að það eru líkur til þess að raunheimar kalli á meiri lækkun starfshlutfalls en hér er boðið upp á. Aftur ítreka ég, með það í huga að sú ákvörðun sem nú liggur fyrir í þessu frumvarpi tekur til rétt rúmlega 100 daga að hámarki, að stjórnvöld hafa tíma til að aðlaga þá ákvörðun ef raunin verður sú að ekki sé þörf á að hækka þetta hlutfall úr 50% í 75%.

Í fimmta lagi langar mig að halda því til haga að vel verði hugað að stöðu einyrkja og annarra sjálfstætt starfandi í hvaða atvinnugrein svo sem það kann að vera, þó sérstaklega þeirra sem tengjast ferðaþjónustunni með einum eða öðrum hætti. Öllum er ljóst að þau áhrif sem eru að verða af þessu tímabundna hruni í ferðaþjónustunni skvettast yfir á flestalla aðra geira, því miður. Hvað heimilin varðar og launamenn sem þetta frumvarp tekur á og síðan vinnuveitendur hvað það varðar að vernda vinnuréttarsamband milli vinnuveitenda og launþega held ég að rétt sé að hafa í huga og ég fagna því sérstaklega hversu snöggir til þrír stærstu viðskiptabankarnir — afsakið að ég tiltaki ekki aðra sem hafa gefið sambærilegar yfirlýsingar eða lífeyrissjóði ef slíkar yfirlýsingar hafa komið fram — mér sýnist að þrír stærstu viðskiptabankarnir hafi strax stigið inn og boðið viðskiptavinum sínum upp á greiðslufrest á til að mynda húsnæðislánum. Það mun auðvitað skipta mjög miklu máli þegar ráðstöfunartekjur heimila eru skoðaðar í því samhengi sem nú blasir við. Það hefur ekki áhrif á þá sem eru til að mynda á leigumarkaði og ekki heldur þá sem eru með húseignir sínar fjármagnaðar hjá aðilum sem kunna að ákveða að taka ekki þátt í þessari aðgerð. Ég hvet þær lánastofnanir eða lífeyrissjóði sem ekki hafa hoppað á þennan vagn til að gera það hið fyrsta.

Í öllum þeim aðgerðum sem eru fyrir framan okkur er áhættuminna að yfirskjóta í aðgerðunum en undirskjóta. Ég hvet hv. velferðarnefnd til að handleika þetta mál þannig að frekar verði horft til þess að bæta í viðbrögðin en að draga úr þeim, hafa þetta eins einfalt og nokkur kostur er því að flækjustigið er nóg fyrir. Það mun styðja við það að fyrirtæki og heimili geti varið orkunni í það sem skiptir máli, annars vegar hvað varðar að verja fyrirtækin og ráðningarsambandið við þá starfsmenn sem nýta sér þetta úrræði og hins vegar að heimilin með fyrirvinnu sem er að nýta sér þetta úrræði hafi eins mikinn fyrirsjáanleika og kostur er í sínu umhverfi í gegnum það tímabil sem þetta ástand varir.

Þetta er það sem ég vildi segja hér við 1. umr. Til að súmmera þetta upp er það það að nefndin skoði 650.000 kr. hámarkið, að nefndin skoði að víkja frá viðmiðum um 80% af heildarlaunum, að skoðað verði sérstaklega að tryggja að þeir sem nýta sér lækkað starfshlutfall skaðist ekki hvað réttindin varðar ef síðan kemur til varanlegs atvinnuleysis þó að fyrirtæki fari ekki í þrot, að skoðað verði að í stað þess að lækkunarhlutfallið verði 20–50% verði það 20–75% og síðan að gæta sérstaklega að einyrkjum og þeim sem eru sjálfstætt starfandi á markaði.

Ég ætla að láta þessu lokið að sinni og bíð spenntur eftir að sjá breytingartillögur frá hv. velferðarnefnd.