150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[15:58]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég kem bara upp í lokin til að þakka fyrir umræðuna sem mér hefur fundist afar málefnaleg. Góðar ábendingar hafa borist við málið frá fulltrúum allra þingflokka, bæði með ræðum og svo andsvörum við mína ræðu í upphafi. Ég legg áherslu á gott og mikilvægt samstarf við velferðarnefnd í málinu. Það er gríðarlega mikilvægt að við vinnum málið hratt og vel vegna þess að við viljum að þetta geti nýst fyrirtækjum á næstu dögum og vikum í þeim þrengingum sem fram undan eru. Ég ítreka aftur að þær athugasemdir sem komu fram í umræðunni voru gagnlegar og góðar og ég vonast til þess að nefndin vinni málið hratt og vel.