150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví.

667. mál
[16:15]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég held að óhætt sé að lýsa hér yfir að ég styð framgang þessa máls og vona að við náum að klára það fljótt og vel í hv. nefnd. Ég mun ekki fara í aðra ræðu nema ég neyðist til, þ.e. ekki aðra en andsvörin. Ég tel að hér sé á ferðinni mjög gott mál en mig langar engu að síður að spyrja hæstv. ráðherra fyrst hvort lögin miði við einhver takmörk á því hversu oft einhver tiltekinn einstaklingur geti farið í sóttkví eða hvort liggja þurfi til grundvallar ný tilmæli frá sóttvarnalækni í hvert skipti. Þetta getur skipt máli vegna þess að á þriggja, fjögurra mánaða tímabili kunna auðveldlega að koma upp þær aðstæður ítrekað að tilteknir einstaklingar geti lent í sóttkví oftar en einu sinni. Þá er mikilvægt að tekin séu af öll tvímæli um að menn geti verið oftar en einu sinni í sóttkví.

Hitt sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um varðar það sem kemur fram í frumvarpinu að tekin séu af tvímæli um að það verði að vera tilmæli frá sóttvarnalækni um sóttkvína. Hvernig verður það ákveðið ef einhver veikist í sóttkvínni hvort viðkomandi eigi að fara yfir á veikindaleyfi versus ekki? Það kann að vera vandkvæðum bundið til að mynda að elta fólk sem er í sóttkví heim (Forseti hringir.) til að ganga úr skugga um veikindi þess.