150. löggjafarþing — 78. fundur,  17. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[19:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Birgir Þórarinsson fjallaði mjög almennt um þjóðlendumálin og minnst um það frumvarp sem hér liggur fyrir. Það hefði verið gagnlegt ef hv. þingmaður hefði varið meira af tíma sínum til að fjalla um þær breytingar sem felast í frumvarpinu, sem hann er andvígur. Ég held að í máli hans, og reyndar fleiri sem hafa tjáð sig um þetta, gæti ákveðins misskilnings varðandi það sem í því felst. Hér er fyrst og fremst um að ræða breytingar á málsmeðferðarreglum. Þær breytingar sem felast í frumvarpinu hafa engin áhrif á eignarréttindi einstaklinga til eða frá. Það er jafn ljóst og áður að þeir sem geta sýnt fram á eignarrétt fyrir dómstólum á grundvelli gagna munu geta það hér eftir sem hingað til og frumvarpið sem slíkt hefur engin áhrif á hin undirliggjandi eða efnislegu eignarréttindi.

Hvað varðar sjávarjarðirnar þá komu upp álitamál við málsmeðferðina sem voru leidd til lykta á vettvangi allsherjar- og menntamálanefndar sem m.a. leiða í ljós að þær athugasemdir sem lúta að því að verið sé að taka einhvern rétt af eigendum sjávarjarða byggja á misskilningi á frumvarpinu. Það er ekkert í því sem hefur áhrif á eignarréttindi eigenda sjávarjarða, ekki nokkur skapaður hlutur. Hins vegar er í frumvarpinu ákvæði sem hefur áhrif á málsmeðferð í þessum tilvikum. Á því er grundvallarmunur og gengur ekki, ef umræðan á að vera málefnaleg, að blanda þessu saman.