150. löggjafarþing — 78. fundur,  17. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[19:07]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það er t.d. bara verulegt áhyggjuefni að í frumvarpinu á að opna fyrir það að taka mál upp að nýju á ákveðnum svæðum sem búið er að ljúka, því ferli er lokið. Ég fullyrði það hér að þeir sem hafa þurft að standa í þessum málarekstri árum saman og verja sig gagnvart ríkisvaldinu hafa verulegar áhyggjur af því. Það segir sig bara sjálft. Nú eiga þessir aðilar það yfirvofandi að hugsanlega verði opnað fyrir þessi mál að nýju og menn þurfi að fara að verja sig gagnvart ríkisvaldinu með tilheyrandi kostnaði, fyrirhöfn og áhyggjum. Þetta er eitthvað sem blasir við samkvæmt frumvarpinu, hv. þingmaður, þannig að (Gripið fram í.) — hv. þingmaður getur þá farið nánar yfir það á eftir.

Kjarni málsins er sá að reynslan af þessum málum er með þeim hætti að það er kominn tími til að ljúka þessu, að leggja óbyggðanefnd niður og spara þá miklu peninga skattgreiðenda sem hafa farið í þetta mál frá upphafi. Það stóð til að þetta yrði í nokkur ár þegar lögin voru samþykkt á sínum tíma en er enn við lýði 22 árum síðar og margir hafa hreint og beint þurft að standa í málaferlum sem hafa tekið mjög á fjölskyldur og bændur í þessu landi. Það verður að segjast alveg eins og er. Menn héldu að þeir gætu treyst því að ekki yrði sælst í þinglýstar eignir en annað kom á daginn.

Ég ítreka að ég hef verulegar áhyggjur af því að hið sama verði uppi á teningnum í framhaldinu hvað þetta frumvarp varðar, að kröfurnar verði þannig að það komi til með að valda miklum erfiðleikum fyrir fólk og tjóni þegar upp er staðið.