150. löggjafarþing — 78. fundur,  17. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[19:09]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir sína ágætu ræðu með öllum þeim söguskýringum sem þar komu fram. Sem landeigandi og félagi í ágætu félagi, Félagi landeiganda, sé ég nú ekki allar þær grýlur sem þar voru teiknaðar upp. Hv. þingmaður nefndi Grýtubakkahrepp, þegar þær kröfur voru gerðar á sínum tíma. Það vill nú þannig til að í því sveitarfélagi býr sá sem hér stendur og ætla ég fyrst að spyrja hv. þingmann að því hvort hann þekki þær lyktir sem urðu varðandi þann úrskurð sem óbyggðanefnd fékk gegn Grýtubakkahreppi í því tilviki.

Vissulega hefur ýmislegt gengið á í öllu þessu en það er líka rétt að minnast á það hér í þessum ræðustól að málskostnaður hefur hingað til verið greiddur af ríkinu. Vissulega getur svona mál tekið á fólk andlega, og komið niður á störfum þess en fjárhagslega skilst mér að ríkið hafi staðið hvað mest í þessu öllu saman. Að hluta til er þetta náttúrlega þannig að með því sem var gert í máli óbyggðanefndar þá eru menn að skýra landamerki. En ég vil beina spurningu til hv. þingmanns varðandi niðurstöðuna sem kom í máli Grýtubakkahrepps.