150. löggjafarþing — 78. fundur,  17. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[19:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Niðurstaðan er ekki aðalatriðið í þessu máli hvað það varðar að kröfugerðin var með þeim hætti að menn þurftu að leggja í ómælda vinnu til að reyna að verja sig gagnvart þeim kröfum sem þeir áttu alls ekki von á. Ég þekki ekki niðurstöðuna, af því að hv. þingmaður spurði að því, varðandi þetta ákveðna sveitarfélag. Upphaflega var lagt upp með það að 90% af landi þessa sveitarfélags tilheyrðu þjóðlendu. Og það eru mörg svona dæmi, og ég þekki svona dæmi, þar sem kröfur ríkisins voru langt fram úr hófi, langtum meiri en lagt var af stað með í upphafi. Menn voru hreinlega orðlausir þegar þeir sáu þær kröfur sem komu fyrst frá ríkisvaldinu. Það er það sem skiptir máli, að farið var út fyrir það sem lagt var af stað með í upphafi. Það er svolítið mikilvægt að halda því til haga, hv. þingmaður.

Varðandi kostnaðinn þekki ég mörg dæmi þess að einstaklingar sem áttu hlut að máli, bændur, fengu ekki allt greitt sem þeim hafði verið lofað. Það er staðreynd málsins og hægt að sýna fram á það ef þess er óskað sérstaklega. En höldum okkur við það að með þessu frumvarpi er verið að blása lífi í þessi mál að nýju. Þegar menn héldu að þessu væri loks að ljúka á að halda áfram og opna fyrir fleiri möguleika o.s.frv. og snúa sér að sjávarjörðum eins og ég hef rakið í ræðu. Það hugnast mér ekki. Sporin hræða í þessu máli, það er bara ósköp einfalt. Hv. þingmaður greindi réttilega frá því að þetta veldur mörgum miklum áhyggjum og þetta hefur valdið mönnum tjóni. Þetta hefur gert það að verkum, eins og ég rakti áðan, að ekki hefur verið hægt að selja jarðir vegna þess að yfirliggjandi voru kröfur til margra ára, óleyst mál til margra ára. Þetta hefur allt valdið fólki tjóni sem það hefur ekki fengið bætt. Það er bara þannig, hv. þingmaður.