150. löggjafarþing — 78. fundur,  17. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[19:14]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Í upphafi ætla ég að upplýsa hv. þingmann um niðurstöðuna í Grýtubakkahreppi. Hún var þannig að það var ekki ein þúfa í Grýtubakkahreppi dæmd sem þjóðlenda vegna þess að við gátum sýnt fram á öll landamerki. Vissulega var það ákveðin vinna en landamerkin voru skýr. Það er væntanlega tilgangurinn, þegar menn fara af stað í svona mál, að upplýsa um það hvar landamerki eru. Væntanlega er það þannig í þessari vinnu að menn þurfi að sýna fram á hve jörðin þeirra er stór og það þurftu landeigendur að gera í þessu tilfelli, og þetta tók sinn tíma. En tilgangurinn helgaði meðalið. Alla vega verð ég að segja það með okkur sem búum í þessu sveitarfélagi.

Ég þekki líka það sem gekk á í öðrum sveitarfélögum í kringum mig og niðurstaðan varð sú sama. Í nágrannasveitarfélagi við mig var það eina sem var dæmt þjóðlenda land sem var hvort sem er í eigu ríkisins áður. Á vissum svæðum eru landamerki greinilega skýr og þar af leiðandi liggur það fyrir. Það verður að koma fram í þessari umræðu að með frumvarpinu á ekki að fara aftur af stað á þau svæði þar sem niðurstaða liggur fyrir. (Gripið fram í.) Nei, það er ekki þannig. Það á ekki að fara af stað aftur í það að fara í mál við landeigendur þar sem niðurstaðan liggur fyrir. Það er alveg kýrskýrt.