150. löggjafarþing — 78. fundur,  17. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[19:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég held að hv. þingmaður hafi þarna komið að mjög mikilvægum punkti í þessu máli, þegar hann segir að landamerki hafi verið skýr. En hvers vegna var þá ríkisvaldið að gera kröfu á þau svæði þar sem landamerki voru skýr? Það held ég að sé eitthvað sem ekki var lagt upp með í upphafi. Það var ekki vilji löggjafans að fara að seilast inn á þinglýst landamerki, en það var gert. Það var gert og það er nákvæmlega það sem hv. þingmaður rakti hér og gott að það kom fram.

Við erum að horfa upp á það hvernig ríkisvaldið hefur komið fram við borgarana hvað varðar eignarrétt. Stjórnarskrárvarinn eignarréttur einstaklingsins, þinglýst landamerki, var vefengdur og það er eitthvað sem ríkisvaldið á aldrei að gera, aldrei nokkurn tímann. En það var gert. Það er ekki gert í hinum vestræna heimi en það var gert á Íslandi og það var gert í ríkjum Sovétríkjanna á sínum tíma þegar Stalín var búinn að taka jarðeignir af hinum almenna borgara þar í landi. Hér á Íslandi var þetta gert og rétt að halda því til haga.

Við höfum enga tryggingu fyrir því, nú þegar á að fara að snúa sér að sjávarjörðunum, að ekki verði gerðar einhverjar kröfur sem eru þegar þinglýstar, þinglýst landamerki og skýr landamerki, eins og hv. þingmaður rakti réttilega og greindi ágætlega frá. Að því snúa áhyggjur okkar í Miðflokknum, að þessi mál eru komin algjörlega út fyrir allt sem ætlunin var í upphafi. Það eru allir sammála um það. Eins og ég rakti í ræðu voru þingmenn og ráðherrar boðaðir á fundi og þeir viðurkenndu þetta. Þeir sem settu lögin viðurkenndu þetta en gerðu ekki nokkurn skapaðan hlut í málinu. Það er það alvarlega.