150. löggjafarþing — 78. fundur,  17. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[19:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi bara árétta það sem kom fram áðan að umfjöllun um málið í nefndinni var með ágætum. Milli 1. og 2. umr. var farið ítarlega yfir málið og allir umsagnaraðilar voru kallaðir á fund nefndarinnar. Þegar málið kemur til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd, milli 2. og 3. umr., er nefndin fyrst og fremst að reyna að glöggva sig á tilteknum álitamálum sem athugasemdir höfðu komið fram um og byggðu fyrst og fremst á athugasemdum frá Landssamtökum landeigenda og Samtökum eigenda sjávarjarða. Nefndin fjallaði um það efnislega hvort sá skilningur sem kom fram í athugasemdum þessara ágætu aðila ætti við rök að styðjast og ætti sér stoð í frumvarpinu sjálfu. Niðurstaða nefndarinnar var sú að svo væri ekki. Það var niðurstaða nefndarinnar eftir umfjöllun um málið þegar málið var tekið aukalega til umfjöllunar milli 2. og 3. umr. Hafi einhver nefndarmaður haft áhuga á því að kalla fleiri gesti til eða fá frekari umfjöllun um málið á vettvangi nefndarinnar kom það ekki fram á þeim fundi sem ég sat í þessu.