150. löggjafarþing — 78. fundur,  17. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[19:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni andsvarið. Ég þarf greinilega að temja mér að tala skýrar því að ég hélt að það hefði komið alveg skýrt fram, a.m.k. í minni ræðu, að ég gerði miklar athugasemdir við þær málsmeðferðarreglur sem verið væri að breyta núna, þá sérstaklega varðandi það atriði sem snýr að endurupptöku mála. Það er þeirrar gerðar, sá hluti málsins, að mér er alveg fyrirmunað að skilja hvað rekur menn til þess að opna á þá vegferð, þannig að því sé haldið til haga að gagnrýnin er m.a. á þessar breyttu málsmeðferðarreglur þó að undirliggjandi sé síðan gagnrýni sem er annars eðlis og að mörgu leyti pólitísk. En málsmeðferðarreglurnar eru sannarlega gagnrýndar í þeim sjónarmiðum sem ég hef sett fram.