150. löggjafarþing — 78. fundur,  17. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[20:06]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998 (leyfisveitingar, málsmeðferð, endurupptaka o.fl.). Ég verð nú að byrja á því, eins og fleiri ræðumenn hafa verið að nefna í ræðum, að geta þess að það vekur furðu mína að þetta mál skuli vera hér til umræðu á þessum óvissutímum, í ljósi þeirrar staðreyndar að það gengur yfir heimsbyggðina veirufaraldur sem skekur mannlíf yfir allan hnöttinn. Forseti Alþingis hefur sagt það í fjölmiðlum að mest verði rædd mál á þinginu sem viðkoma þeirri stöðu sem upp er komin og þá átti maður ekki von á því að þetta mál, sem er alls ekki, að áliti okkar í Miðflokknum, komið á þann stað að hægt sé að ljúka því, yrði sett á dagskrá. Við héldum í raun að það væri á leiðinni út vegna þess að það var fundur í nefndinni áðan og ekki voru allir gestir búnir að komast að og eru menn ekki á einu máli um það hvers vegna það skeði. En mér finnst það mjög skrýtin staða að við skulum vera að ræða þetta mál. En gott og vel, það er á dagskrá og ég stend hér í ræðupúlti og ræði það.

Þegar við vorum með þetta mál í 2. umr. gerði ég mér góðar vonir, og við fleiri, um að sniðnir yrðu af agnúar og þeim spurningum svarað sem uppi voru á þeim tímapunkti, aðallega um það sem varðar 5. gr. frumvarpsins. Og eins og hefur komið fram í ræðum var í nefndinni lagt fram minnisblað frá óbyggðanefnd þar sem kemur fram að um mikinn misskilning sé að ræða hjá aðilum sem hafi sent inn umsagnir en þeir aðilar eru samt sem áður ekki kallaðir inn í nefndina til að fá þá til að kyngja þeirri óvissu heldur er þetta bara yfirlýsing á minnisblaði og í raun svolítið einhliða fram fært. Og ég verð að segja að mér hugnast þessi aðferð ekki. Ég get ekki ímyndað mér að allir þeir umsagnaraðilar sem gerðu athugasemdir við þetta mál séu sáttir við þessa lúkningu. Það hefur komið fram í ræðu hjá hv. þm. Birgi Þórarinssyni að undanfarin ár og áratugi hafa verið málaferli í gangi sem hafa orðið til þess að aðilar sem eiga jarðir hafa ekki getað selt jarðir vegna yfirliggjandi mála og sporin hræða ef þetta á síðan að útfærast víðar, eins og kemur fram í 5. gr., það er verið að fara í sjávarjarðir og eyjar og sker. Mér finnst alveg ljóst að þetta mál þarf að fá miklu betri og vandaðri umræðu þannig að allir aðilar máls geti farið sæmilega sáttir frá því. Það eru t.d. Samtök eigenda sjávarjarða sem ég ætla að nefna í því sambandi.

Af því að ég var að minnast á þetta minnisblað þá langar mig aðeins að rifja upp umsagnir frá aðilum sem eiga eyjar og sker og hafa með það að gera. Er þá fyrst umsögn frá Bjarna M. Jónssyni sem er eigandi sjávarjarða og sérfræðingur í haf- og strandsvæðastjórnun. Hann segir hér, með leyfi forseta:

„Í raun er 5. gr. óþörf og mikið auðveldara væri að fylgja gildandi lögum þar sem fram kemur að landamerki sjávarjarða eru dýptarviðmið samkvæmt Jónsbókarlögum sem er 4 faðmar eða 6,88 metrar út frá meginlandi, hólmum, skerjum, dröngum og steinum, sem upp úr sjó rísa á stórstraumsfjöru. Að öllum líkindum er netlagaskilgreining Jónsbókar besta, einfaldasta og eðlilegasta skilgreining á landamerkjum jarða sem óbyggðanefnd hefur fengist við hingað til þar sem hún er alls staðar sú sama hringinn í kringum landið. Seinni tíma lög sem miða við fjarlægðarregluna 60 faðma eða í dag 115 metra frá stórstraumsfjöruborði mega vera þarna en alltaf hlýtur það sem lengra nær að ráða því hvað gert er innan svæðisins, þ.e. menn geta ekki leyft námuvinnslu utan 115 metra netlaga en innan dýptarviðmiðs netlaga ef það nær lengra út.“

Þá eiga við ákvæði úr Jónsbók þar sem talað er um dýptarviðmið og á það víða við, sérstaklega á svæðum í Breiðafirði þar sem menn eru að nýta sjóinn á grunnu vatni, t.d. til veiða. Þó að þetta sé nefnt í minnisblaðinu finnst mér það ekki vera nægjanlegur frágangur málsins að aðilar þurfi ekki að hafa áhyggjur af þessu máli því að það sé í raun misskilningur. Því hefðum við í mínum flokki viljað fá miklu betri svör við.

Svo að ég vitni aðeins í greinargerð með 5. gr., með leyfi forseta:

„Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um fjölda þeirra landfræðilegu eininga sem eru ofan sjávarmáls á stórstraumsfjöru. Þó liggur fyrir að yfir 10.000 eyjar og sker við strendur Íslands hafa verið teiknuð inn í kortagrunna en einungis lítill hluti þeirra ber nafn. Ætla má að það kynni að reynast afar tímafrekt að viðhafa sams konar málsmeðferð vegna þeirra og tíðkast hefur vegna meginlandsins. Sú málsmeðferð felst m.a. í því að óbyggðanefnd tekur tiltekinn landshluta til meðferðar og gefur hlutaðeigandi ráðherra frest til að lýsa þar kröfum um þjóðlendur, samanber 1. mgr. 10. gr. laganna.“

Ég verð nú bara að segja það, eins og ég sagði í ræðu hér um daginn, að ég er nokkuð öruggur á því að flestöll sker bera nafn, það þyrfti ekkert að fara í djúpa vinnu til að finna það út. Það kemur líka upp í hug minn sú hugmynd þegar verið er að tala um friðun lands, að eyjar sem alltaf eru með grasi, annað kallast sker, hafa margar hverjar verið, flestar, alla vega í Breiðafirði, til ábúðar og til nýtingar í gegnum aldanna rás. Og það er bara þannig að þessum eyjum, ef við getum talað um líðan, líður best við þannig skilyrði. Eyjar sem eru friðaðar og ekkert nýttar og hafa enga umgengni frá okkur, hvernig sem því er háttað, með fjárbeit eða öðru slíku, sem er að færast í vöxt, fara í algjöra órækt. Þær fyllast af hvönn og njóla, það verður uppfok og fuglalífi hnignar. Ég get nefnt eina eyju á Breiðafirði sem heitir Melrakkaeyja. Hún var friðuð fyrir nokkrum árum og þar fækkaði stórlega í fuglastofnum og varð mest eftir vargur, sem við köllum, og eyjan í algjörri órækt.

Ég held að menn ættu að huga að því, ef uppi eru hugmyndir um einhvers konar friðanir í þessa veru, að sagan segir okkur að þegar þessar tilteknu eyjar, alveg eins og landsvæði sem hafa verið ræktuð upp og nýtt af manninum, þar hafa sem sagt verið bæði menn og skepnur í aldanna rás, fara í eyði og enginn kemur nálægt þeim þá fara þær í algjöra órækt. Við sjáum bara jarðir uppi á landi sem eru komnar í eyði, þær fara allar undir hvönn og njóla og verða þýfðar og slíkt. Lífríkið á eyjunum er orðið vant því í gegnum aldanna rás að lifa með manninum og því líður best þannig. Ég segi það bara um þetta mál að það er alls ekki komið á það stig að hægt sé að ganga sáttur frá borði. Það þarf að vinna það miklu betur og batt ég vonir við að það yrði gert í 2. umr., þar sem við ræddum það svolítið fram og til baka. En það sem kom út úr vinnunni á milli 2. og 3. umr. var þetta minnisblað frá óbyggðanefnd og nánast ekkert annað. Þar sem hv. þm. Birgir Ármannsson segir að þetta sé eingöngu málsmeðferðar mál trúi ég því bara. En það eru samt uppi þessar áhyggjur okkar og þeim áhyggjum þarf að linna.

Ég vil ekki trúa því fyrr en ég tek á því að það eigi að þvinga málið í gegn og mig langar að segja það sama og hv. þm. Bergþór Ólason sagði áðan, að hann tryði því ekki upp á Sjálfstæðismenn, og varla upp á Framsóknarmenn heldur, að þeir skuli vilja koma þessu máli í gegn, sérstaklega á slíkum tímum þegar við ættum að vera að ræða mun meira aðkallandi mál sem lúta að því í hvaða stöðu við erum gagnvart þeirri veiru sem, eins og ég sagði í upphafi ræðunnar, skekur heimsbyggðina og veldur mikilli óvissu. Forseti Alþingis var búinn að tala um að vinna þingsins og stjórnmálin myndu nánast eingöngu snúast um það mál þangað til það væri komið á það stig að við gætum farið að anda léttar og taka fyrir þau mál eins og þetta mál og önnur mál, þingmannamál og frumvörp, sem liggja fyrir þinginu en hafa verið sett til hliðar að svo stöddu vegna óvissunnar. Nú er tími minn að renna út og vona ég að málið verði lagt til hliðar þangað til að því kemur að við höfum tíma til að ræða það betur.