150. löggjafarþing — 78. fundur,  17. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[20:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Málið sem við ræðum á sér alllanga sögu, bæði í þingsal og meðal landsmanna. Þetta er eitt af þeim ólukkans málum sem við hefðum betur aldrei farið af stað með fyrir 20 árum. Ég myndi vilja að við værum að ræða hér hvernig við ætluðum að ljúka þeirri vegferð sem farið var í á sínum tíma. Auðvitað getum við mörg sagt að við hefðum kannski betur reynt að stoppa það á einhvern hátt á fyrri stigum en hér erum við komin. Það sem ég hef einna mestar áhyggjur af í málinu eins og það er vaxið í dag er sú upplifun að verið sé að auka við heimildir eða opna á að taka mál upp að nýju. Ég hef heyrt því mótmælt hér af einstaka ræðumanni, þegar ég hef komið í andsvör, að það sé einfaldlega ekki rétt. Lagatextinn er samt mjög skýr. Það kemur líka fram í báðum nefndarálitunum að verið er að opna á heimildir, vissulega með ákveðnum hætti, þar sem verið er að auka möguleika ríkisins til að bæta við kröfur sínar o.s.frv. Það finnst mér ekki gott og ég held að þetta mál hefði mögulega getað fengið örlítið meiri frið. Að vísu er þarna líka önnur grein sem við höfum gert athugasemdir við. En það hefði verið skárra að þurfa bara að glíma við 5. gr. í þessu máli en ekki 4. gr. líka, ef það hefði staðið til boða.

Hins vegar kemur dálítið á óvart að ríkisstjórnin, eins og hún er samansett, með þá stjórnarflokka sem nú eru skuli leggja svona mikið upp úr því að þetta mál verði klárað, að það sé forgangsmál að klára það hér á kvöldfundi þegar margt annað er á dagskrá sem við þyrftum að vera að ræða. Ég kem kannski betur að því á eftir.

Það hafa komið fram athugasemdir varðandi þetta mál frá landeigendum og frá eigendum sjávarjarða, eins og fram hefur komið. Það er álit landeigenda að verið sé að opna á endurupptöku mála sem þeim hugnast eðlilega ekki. Við sem vorum hinum megin við borðið á ákveðnum tíma í sveitarstjórnum, þegar hluti af þessu gekk yfir, munum ágætlega hversu mikill tími og orka fór í að eiga við þetta mál. Það er ekki stóra breytan að reikningurinn sé, að hluta til í það minnsta, sendur ríkisvaldinu. Það er ýmis annar kostnaður og fyrirhöfn sem fylgdi þessu líka og fylgir þessu sem er mögulega verið að opna á að endurtaki sig hér.

Það sem er kannski sérstakt við þetta, hæstv. forseti, er að áherslan skuli vera á það að leyfa þessa endurupptöku. Látum vera ef hér væri verið að reyna að skýra lagaheimildir sem væru fyrir hendi eða skýra verkefni sem óbyggðanefnd á að hafa á sínum höndum. Nei, þá er verið að bæta í og maður hefur á tilfinningunni að verið sé að reyna að læða þessu í gegn, að þessi endurupptaka sem þarna er í gangi sé eitthvað svona sem menn hafa ekki endilega mjög góða tilfinningu fyrir, en rétt sé að ýta henni hér í gegn þegar hugur manna er á allt öðrum stað.

Það leiðir hugann að dagskrá þingsins sem óhjákvæmilegt er að koma aðeins inn á. Það er með ólíkindum að við séum að ræða þetta mál nú þegar við erum með önnur og stærri mál undir. Hér var settur á þingfundur og þar með var fundi í velferðarnefnd slitið þar sem forseti ákvað að þetta mál skyldi ganga fyrir. Þetta mál yrði að ræða og þetta mál yrði að klára þó að ekki eigi að greiða atkvæði um það strax heldur væntanlega á fimmtudaginn ef allt gengur eftir. Nei, það er ákveðið að slíta fundi í velferðarnefnd þar sem var verið að ræða stóru málin, atvinnuleysisbætur og hvernig við getum hjálpað fólki sem jafnvel er að glíma við brostinn efnahag á sínum heimilum. Þá ákveða menn að gera þetta að stóra málinu, fara með það inn í þingið, vitandi að þetta er mál sem kallar á umræðu, mál sem styr er um, mál sem skiptir í sjálfu sér engu hvort er klárað núna eða einhvern tíma seinna. Í sjálfu sér er þetta mál sem ætti ekkert endilega að vera á dagskrá á þessu þingi yfirleitt. En þetta er forgangsröðunin. Þetta er það sem stjórnarmeirihlutinn vill gera. Það verður fróðlegt að sjá hvort þetta verða vinnubrögðin sem verða notuð hér í þingsal á næstunni, að einhver mál sem mönnum kann að þykja að séu umdeild eða erfið verði sett á dagskrá til þess að lauma þeim í gegn meðan hugurinn er annars staðar. Við munum að sjálfsögðu ekki taka því þegjandi.

Velferðarnefnd var ekki búin á sínum fundi þegar forseti ákvað að honum skyldi lokið. Ekki voru allir gestir búnir að ná sambandi inn á fundinn í gegnum fjarfundabúnað. Þar af leiðandi er fundur kl. 9 í fyrramálið, framhaldsfundur í raun og með þeirri dagskrá sem var í kvöld.

Virðulegi forseti. Það er óþarfi að lengja málið. Þetta er í sjálfu sér ekkert flókið. Þetta er frumvarp sem tekur á stórum málum. Ég ætla ekki að hætta mér mjög mikið út í 5. gr., ég hef ekki náð að setja mig inn í hana eins og margir félagar mínir sem hér hafa talað í kvöld. Ég minntist á 4. gr. og ég held að það sé mjög slæmt að við séum með hana inni í þessu máli. Ég vonast til þess, ég er ekki að boða það, að meiri hlutinn sjái að sér og komi fram með breytingartillögur áður en atkvæðagreiðslan fer fram þannig að hægt sé að breyta þessu máli á lokasprettinum.

Hæstv. forseti. Ég hefði gjarnan viljað sjá að dagskrá þingsins væri með öðrum hætti, að við værum að einbeita okkur að þeim málum sem raunverulega þarf að einbeita sér að en ekki svona aukamálum.