150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. „Ísland klappar fyrir heilbrigðisstarfsfólki“ heitir viðburður sem verður klukkan sjö í kvöld þar sem Íslendingar eru hvattir til að fara út í dyragætt, fara út á svalir, fara út á pall og klappa fyrir heilbrigðisstarfsfólki. Þetta er að fyrirmynd viðburðar á Tenerife. Um viðburðinn í kvöld segir, með leyfi forseta: „Heilbrigðisstarfsfólkið í landinu okkar á svo sannarlega hrós skilið fyrir alla þá óeigingjörnu vinnu sem það hefur unnið núna síðustu vikur.“

Ég vil bæta við að þegar við fórum að skoða stöðu heilbrigðismála þegar ég datt inn á þing 2013 og vorum að gera fjárlög fyrir 2015 sögðu allar yfirstofnanir heilbrigðiskerfisins að það vantaði upp á til þess að þær gætu tryggt öryggi sjúklinga. Þegar við skoðuðum stöðuna kom í ljós að það bjuggust allir við því að heilbrigðiskerfið myndi fara niður, að við myndum ekki ná að halda uppi fyrsta flokks heilbrigðiskerfi eftir hrunið. En það er það sem heilbrigðisstarfsfólkinu okkar tókst. Því tókst að halda uppi fyrsta flokks heilbrigðiskerfi þrátt fyrir niðurskurðinn í hruninu, sem er skiljanlegur og var alla vega að miklu leyti nauðsynlegur. Heilbrigðisstarfsfólkið hélt kerfinu uppi. Það er bara þannig að við getum treyst heilbrigðisstarfsfólkinu okkar, við getum alltaf leitað til þess og treyst á að það standi sig. En það þurfti samt fyrsta læknaverkfall sögunnar til að læknar fengju hækkun, það kostaði 4 milljarða kr. að hækka laun þeirra. Þess vegna voru sett lög á verkföll hjúkrunarfræðinga 2015. Það var varað við manneklu. Hver er staðan núna? Við erum að uppskera núna og nú er kominn tími til að spýta í. Á sama tíma segir Félag hjúkrunarfræðinga á Íslandi okkur að enn einn árangurslaus samningafundur hafi verið haldinn fyrir tveimur dögum á milli samninganefndar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og samninganefndar ríkisins, (Forseti hringir.) sem er á ábyrgð hæstv. fjármálaráðherra. Þetta er ekki boðlegt. Það þarf að ná samningum strax við hjúkrunarfræðinga.

En í kvöld klukkan sjö ætlum við að fara út í dyragætt eða út á svalir og klappa fyrir heilbrigðisstarfsfólkinu okkar.