150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla auðvitað að fjalla um það sama og flestir aðrir í þessum ræðustól, þ.e. ástandið vegna kórónufaraldursins. Ræða mín mun þó ekki fjalla um heilsufarslegar aðgerðir okkar til undirbúnings þess að faraldurinn leggist á með auknum þunga eða álag faraldursins á heilbrigðiskerfið. Þar standa heilbrigðisstéttirnar þétt saman og standa sig með afbrigðum vel. Þar kemur líka í ljós hvers virði almannavarnakerfið er því að þar er lyft grettistaki á hverjum degi í beinni útsendingu.

Ég ætla ekki að fjalla um efnahagslegar ákvarðanir vegna þessa. Þar er lögð nótt við dag að undirbúa atvinnulífið og þjóðina undir þau áföll sem augljóslega eru í aðsigi. Þar er mikilvægt að stjórnmálamenn úr öllum flokkum standi saman og vinni að því, ekki einungis á þinginu heldur þarf einnig víðtæka samvinnu við sveitarstjórnarfólk.

Ég ætla að tala um þriðja atriðið, félagslegar afleiðingar. Ég ætla að tala um einmanaleikann og einangrunina sem margir finna til þessa dagana. Fólk óttast eðlilega að vera innan um annað fólk og það er fjöldi fólks, sérstaklega eldra fólk, sem lifir nú í ótta og einangrun og ræða mín er hvatning til félagasamtaka, einstaklinga og stjórnkerfisins alls að reyna að leggja hönd á plóginn og finna leiðir til að rjúfa þessa einangrun með einhverju móti. Ég heyri fréttir af því að mjög margir, félagasamtök og aðrir, séu að reyna það. Margt af því sem ég hef séð er vel gert en ég óttast þessar afleiðingar sérstaklega, að þegar upp verður staðið verði þetta langtímaafleiðingarnar, að fólk hafi einangrast. Við verðum að finna leiðir til að reyna að rjúfa þá einangrun.