150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og margir þingmenn hafa komið inn á lifum við fordæmalausa tíma, en einmitt á svona stundum brýst mennskan í okkur fram og við sýnum að við skiptum hvert annað máli. Þetta hefur komið fram í velferðarnefnd sem hefur unnið vel saman undir traustri forystu formannsins. Hún er búin að skila af sér tveimur gríðarlega mikilvægum málum undanfarna daga sem eru afgreidd út úr nefndinni í samstöðu. Nefndin hefur í sameiningu unnið að þeim breytingartillögum og lagfæringum sem þarf til að gera málin eins vel úr garði og kostur er. Þetta er til fyrirmyndar.

Ríkisstjórnin stígur einnig með sínum aðgerðum afar mikilvæg skref. Þau koma ekki öll í einu, enda vitum við ekki frá degi til dags hvernig staðan verður á morgun. Skrefin sem eru tekin eru þó markviss í þá átt að taka smátt og smátt utan um þá aðila sem á því þurfa að halda á hverjum tíma. Það er gríðarmikilvægt.

Almenningi ber einnig að þakka á svona stundum því að almenningur tekur á sig í þúsundatali að vera í sóttkví til að vernda samborgarana, til að tryggja að útbreiðsla faraldursins verði hægari en hún yrði ella. Þetta er gríðarmikilvægt.

Einnig er ástæða til að þakka starfsfólki þingsins fyrir viðbrögð þess og framlag til stöðunnar eins og hún er núna. Hér eru allar hendur á dekki og hér eru allir að vinna að því að láta hlutina ganga. Það er til mikillar fyrirmyndar.

Saman munum við komast í gegnum þessa krísu eins og aðrar krísur sem íslensk þjóð hefur komist í. Það er ánægjulegt að sjá, og ég ítreka það, (Forseti hringir.) herra forseti, að hér innan húss standa menn saman og ganga saman í verkin.