150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að taka undir þær þakkir sem hafa verið fluttar hér til íslensks heilbrigðisstarfsfólks. Ég hygg að það sé nauðsynlegt fyrir okkur hér á þingi að koma þeim skýru skilaboðum til þessa ótrúlega fólks að við munum tryggja það að a.m.k. skorti ekki fjármuni til að takast á við þær hættur sem steðja að okkur. Hér á næstu dögum og í dag, raunar á eftir og síðan á næstu dögum, er það okkar verkefni að tryggja að gripið verði til aðgerða í efnahagsmálum til að tryggja efnahag íslenskra fyrirtækja og íslenskra heimila. Það er alveg ljóst að þær eru umfangsmiklar. Seðlabankinn spilar þar auðvitað stórt og mikið hlutverk og hefur þegar gripið til ráðstafana sem munu skipta gríðarlega miklu máli. Hér í dag munum við vonandi samþykkja frumvarp félagsmálaráðherra um hlutabætur í atvinnuleysi sem skipta launafólk á Íslandi miklu og fyrirtækin einnig. Og á næstu dögum verða kynntar enn frekari og mjög umfangsmiklar aðgerðir.

En það er líka alveg ljóst að við verðum að vera tilbúin til þess að grípa til frekari aðgerða á komandi dögum og vikum því að staðan breytist dag frá degi. Við þurfum stundum að hafa hröð handtök, taka ákvarðanir hér án þess að vera að velta fyrir okkur stundum ágreiningsmálum vegna þess að hraðinn skiptir miklu og við þurfum að bera gæfu til þess í þingsal og í nefndum að afgreiða mál fljótt og vel.