150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Eins og aðrir þakka ég viðbragðsaðilum og starfsfólki þingsins fyrir að láta hlutina ganga hér í samfélagi okkar. Mig langar að koma inn á það að við erum að fara að afgreiða tvö mál í dag sem skipta töluvert miklu máli og reyndar mjög miklu máli. Annað málið tekur m.a. á þeim sem eiga rétt á launum. Ríkissjóður virðist ætla að standa undir allt að 75% af launum starfsmanna í stað 50%. Við þökkum nefndinni, sérstaklega stjórnarandstöðunni, fyrir að hafa fengið það í gegn að hlutfallið sé hækkað. Hins vegar eru fyrirtæki fyrir utan þetta hús sem ekki eiga peninga fyrir þeim 25% sem upp á vantar. Það eru fyrirtæki sem fá engar tekjur, mörg sem hafa engar tekjur og munu ekki hafa neinar tekjur á næstu vikum og mánuðum. Þessi fyrirtæki hafa verið í fjárfestingum og skulda væntanlega þar af leiðandi töluverða fjármuni. Við þurfum að mæta þeim hópum.

Það sem við þurfum að gera núna er að taka mjög stórar og fljótar ákvarðanir. Við eigum að byrja á því að veita öllum greiðsluskjól, bæði heimilum og fyrirtækjum — strax. Við verðum að gera það strax. Ef það vantar einhverjar útfærslur vinnum við úr þeim eftir á. Við þurfum að gera þetta einn, tveir og þrír. Við þurfum að fella tryggingagjaldið niður strax til lengri tíma litið þannig að fyrirtækin geti séð fram í tímann. Við eigum að gera ráðstafanir og vera viðbúin því að geta tekið vísitölu neysluverðs úr sambandi ef þarf á að halda. Við eigum að vera tilbúin með þetta.

Það er fullt af aðgerðum sem við eigum að vera reiðubúin að fara í án þess að þurfa að velta fyrir okkur útfærslum og afleiðingum fyrr en við erum búin að tilkynna og ákveða hvað við ætlum að gera. Það þarf að hugsa hratt, fast og ákveðið og til þess er stjórnarandstaðan reiðubúin til að vinna með ríkisstjórninni ef boðið er upp á það samtal sem ekki hefur verið hingað til. Við erum tilbúin, við erum með fullt af hugmyndum og við erum gjarnan tilbúin til að koma þá að borðinu og reyna að leysa þessi mál með stjórnarliðum ef upp á það verður boðið.