150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

samvinna um aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar.

[11:06]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er óhætt að segja að landsmenn bíði eftir aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar sem hæstv. menntamálaráðherra kallaði efnahagslega loftbrú í Kastljósinu í gær. Það þarf að lyfta grettistaki til að koma okkur yfir versta hjallann á næstu mánuðum og auk þess þarf að byrja á að skipuleggja viðspyrnu frá botninum þegar veirufjandinn hefur verið sigraður. Enginn einn stjórnmálaflokkur hefur allar lausnir, en öll höfum við eitthvað fram að færa. Með náinni samvinnu og hjálp okkar færustu sérfræðinga getum við komið okkur út úr þessari krísu. Samstarf allra flokka hefur gengið vonum framar í velferðarnefnd og hún hefur unnið dag og nótt til þess að hægt sé að afgreiða aðgerðir í þágu launafólks seinna í dag.

Þarna sýndu stjórn og stjórnarandstaða að þegar á reynir vinnum við mjög vel saman og það þurfum við svo sannarlega að gera áfram. Í Noregi og Danmörku stóðu allir flokkar saman að aðgerðapökkum sem kynntir voru í byrjun vikunnar. Allir flokkar voru fengnir að borðinu og bera því sameiginlega ábyrgð á þeim aðgerðum sem ráðist verður í. Þannig vekja aðgerðirnar meira traust hjá landsmönnum og ég er viss um að í þessu árferði vill fólkið sjá að allir fulltrúar landsins leggist á árar.

Telur hæstv. fjármálaráðherra ekki æskilegt að allir flokkar vinni nánar en nú er gert að vinnu við stóra aðgerðapakkann eða sér hann einhverja augljósa vankanta eða hindranir á að það sé gert?